Gísli heiðraður sem framúrskarandi skipstjóri

Gísli jónsson, t.h., var heiðraður í Gerðarsafni í gærkvöldi.
Gísli jónsson, t.h., var heiðraður í Gerðarsafni í gærkvöldi. Ljósmynd/IceFish

Gísli V. Jóns­son, skip­stjóri á Páli Jóns­syni GK-7, var í gær­kvöldi heiðraður sem framúrsk­ar­andi skip­stjóri við verðlauna­af­hend­ingu Íslensku sjáv­ar­út­vegs­sýn­ing­ar­inn­ar í Gerðarsafni í gær­kvöldi.

Gísli lauk á síðasta ári sini síðustu sjó­ferð eft­ir að hafa stundað sjó­mennsku í meira en hálfa öld. Hann hafði þá verið til sjós frá 1966, en fer­ill­inn byrjaði á bát­um sem gerðir voru frá heima­hög­un­um á Stokks­eyri. Seinna var hann á bát­um aust­ur á landi. Bjó svo alls þrjá­tíu ár í Þor­láks­höfn og reri þaðan; skip­stjóri frá ár­inu 1973.

Árið 1996 réð hann sig síðan til Vís­is hf. í Grinda­vík og munstraðist svo þegar fram liðu stund­ir á bát­inn Pál Jóns­son GK, hinn fyrri. Þegar nýr Páll Jóns­son kom til lands­ins 2020 tók Gísli til starfa sem skip­stjóri á hon­um fram að starfs­lok­um.

„Þegar einu verk­efni lýk­ur set ég punkt­inn og sný mér að ein­hverju öðru. Alls 55 ár til sjós og 48 ár sem skip­stjóri; þetta er orðið ágætt. Ætla að leggj­ast í ferðalög og njóta lífs­ins; heils­an er góð og lífs­kraft­ur­inn enn til staðar. Fram und­an eru skemmti­leg­ir tím­ar,“ sagði Gísli um starfs­lok­in í viðtali við Morg­un­blaðið í fyrra.

Verðlaun­in í ár eru styrkt af Vón­in, Bureau Ver­itas og Morg­un­blaðinu og voru af­hent við hátíðlega at­höfn í Gerðarsafni í Kópa­vogi á fyrsta degi sjáv­ar­út­vegs­sýn­ing­ar­inn­ar í gær, en hún er hald­in í Fíf­unni og lýk­ur á morg­un.

mbl.is