Þóra Lind Halldórsdóttir, verkefnastjóri á mannauðssviði Háskóla Íslands, er forvitin um allt sem er fjölþjóðlegt í landinu. Uppáhaldsstaðurinn að heimsækja á Norðurlandi er Akureyri, þar sem hún fer vanalega á tónleika og borðar eitthvað gott.
Hún hefur mikinn áhuga á ferðalögum. Einn eftirlætisstaður hennar á landinu er Akureyri. Hún er einnig heilluð af minni bæjarstæðum á Norðurlandi og segir hún ástæðuna fyrir því þá að hún er fædd og uppalin í Garði.
Fjölmenning er Þóru hugleikin og telur hún mikilvægt að við sem þjóð tökum fólki alls staðar að úr heiminum opnum örmum, enda leggja þau mikilvægan skerf til menningar okkar að hennar mati.
Sjálf er hún forvitin um fólk frá öðrum löndum, menningu þess og matarhefðir.
„Við þurfum að brjóta niður múra og líta á tækifærin fremur en áskoranirnar,“ segir hún.
Þegar Þóra heimsækir Akureyri fer hún alltaf á nokkra staði.
„Ég fer á tónleika á Græna hattinum og í fornbókabúðina Fróða. Ég og bróðir minn, Þorvaldur Halldórsson, gætum eytt mörgum tímum þar. Síðan varð ég heilluð af Grenivík þegar ég fór þangað síðasta sumar og ég er líka hrifin af Dalvík. Bæði Grenivík og Dalvík hafa þessa smábæjarstemningu sem ég þekki svo vel.“
Hvers konar tónlist heillar þig mest?
„Ég er í raun fyrir alls konar tónlist og fæ stundum æði fyrir ákveðnum hlutum því tengt.
Ég skoðaði og horfði á sem dæmi allt um Bítlana í nokkrar vikur. Þannig er áhugi minn og svo færist hann á milli hljómsveita. Ég ólst upp við mikla tónlist, þar sem bróðir minn er trommari og mamma og pabbi voru dugleg að bjóða mér á alls konar tónleika þegar ég var ung.“
Hvað um matsölustaði á Akureyri. Áttu þér uppáhaldsstað þar?
„Uppáhaldsmaturinn minn er allskonar. Meðal annars mexíkóskur matur, sushi, naut og bernaise, svo eitthvað sé nefnt. Ég get einnig nefnt sem dæmi Kurdo Kebab á Akureyri sem er í eigu fólks af erlendum uppruna.“
Hvaðan kemur þessi áhugi þinn á fjölmenningu?
„Þegar ég var nítján ára fór ég í fyrsta skipti til Afríku og varð alveg heilluð. Ég fór þangað ein og ákvað svo að einblína á fjölmenningu í menntun minni. Í dag starfa ég sem verkefnastjóri á mannauðssviði Háskóla Íslands, þar sem ég held utan um og þjónusta allt erlent starfsfólk við skólann.
Námið mitt hefur meira og minna farið í að skoða og rannsaka fjölmenningu. Ég skilaði meistaraverkefni mínu núna í vor, sem fjallaði um reynslu karlstjórnenda af ólíkum uppruna og kynþætti af stöðu sinni, tækifærum og hindrunum á íslenskum vinnumarkaði. Ég fann að í BS-náminu mínu hafði ég mikinn áhuga á ólíkri menningu og alþjóðasamskiptum og vissi að mig langaði að tengja lokaverkefnið mitt við reynslu innflytjenda á Íslandi.
Í sumar fer ég til Ítalíu með stelpunum sem ég kynntist í sjálfboðastarfi í Afríku árið 2016. Ég hef ekki hitt þær síðan þá, en þær eru frá Ástralíu og Hollandi.
Þegar ég heimsótti Afríku fyrst, hafði ég farið þangað áður en ég fór til Danmerkur, sem segir ýmislegt um mig.“