„Það þarf ekki að fara mjög djúpt í hugmyndafræði Afstöðu og geðheilsuteymisins til að átta sig á því hvað þarf að gera,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um fangelsismál og betrun. Í fangelsum sé gegndarlaus neysla og þá hafi andlegri heilsu fanga hrakað mikið.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið í morgun að unnið sé að úrbótum í málefnum fólks sem þurfi önnur úrræði en hefðbundna fangelsisvist. „Þetta er búið að vera allt of lengi vandamál hjá okkur, sem þarf að leysa,“ sagði Jón Gunnarsson.
Guðmundur Ingi kallar fyrst og fremst eftir aukinni samvinnu í málaflokknum. „Aðalmálið er aukið samstarf við notendur. Við þurfum ekki fleiri plástra. Það þarf að gera heildstæða framtíðarsýn og breytingar á lögum, bæði í geðheilbrigðiskerfinu og fangelsismálum og þessi tvö kerfi þurfa að tala saman.“
Myndir þú segja að þær lausnir sem dómsmálaráðherra hefur borið upp séu plástrar?
„Já, á meðan ekki er farið í heildarendurskoðun, þá eru þetta plástrar.“
Líkt og greint var frá í morgun, sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðuneytið hafa unnið með Fangelsismálastofnun að málefnum fanga og skoðað hvort mögulegt sé að bregðast við þessu og öðru sem snýr að fangelsismálum á sama tíma.
Utanaðkomandi aðili hafi verið ráðinn til að vinna með stofnuninni við að skoða þessi mál. Síðan er stefnan að setja fram leiðir sem mögulegt er að feta til þess að leysa málið.
Spurður hvort Afstaða hafi komið að vinnunni segir Guðmundur Ingi svo ekki vera. „Við vörum við hættunni en þegar hún er orðin að veruleika og of seint að gera eitthvað í málunum, þá er ekkert rætt við okkur.“
Guðmundur Ingi segir að Afstaða hafi varað við því að það myndi hafa hræðilegar afleiðingar að loka á þjónustu við fanga í Covid-19. „Þáverandi dómsmálaráðherra gerði lítið úr því þá. Núna er staðan akkúrat þannig, alveg eins og við vöruðum við,“ segir Guðmundur og vísar í slæma geðheilsu fanga.
Á meðal þess sem bannað var vegna samkomutakmarkana voru almennar heimsóknir, heimsóknir fangapresta, geðheilsuteymis og Afstöðu. Dagsleyfi voru ekki veitt og fangar ekki fluttir á milli fangelsa.
„Það er gegndarlaus neysla í fangelsunum og andlegri heilsu fanga hefur hrakað mikið,“ segir Guðmundur Ingi og vísar í samtöl og fundi félaga í Afstöðu með föngum og fangelsismálayfirvöldum.