Það verður seint sagt um athafnakonuna Kim Kardashian að hún sé ekki í góðu formi. Nýlega birti Kardashian óaðfinnanlegar myndir af sér njóta lífsins á suðrænum slóðum með kærastanum, grínistanum Pete Davidsson.
Af myndunum að dæma ríkti mikil rómantík á milli parsins þar sem það stóð úti í kristaltærum sjó við hvíta baðströnd og deildi innilegum kossum.
„Hann stóðst prófið sem kærastaefni,“ sagði Kardashian við myndefni sem hún setti í sögu á Instagram en Davidsson hafði séð um að mynda hana í bak og fyrir á meðan hún striplaðist hálfber um ströndina.
Parið skellti sér einnig á kajak og tókst samvinna þeirra með árarnar með eindæmum vel. Kannski er það merki um að farsælt og langvinnt ástarsamband þeirra sé í höfn og slitni ekki svo glatt.