Leikarinn Bradley Cooper opnaði sig á dögunum um myrka tíma sem hann upplifði í kringum síðustu aldamót. Cooper viðurkenndi að hafa átt í erfiðleikum með að stjórna áfengisneyslu sinni á þeim tíma en hann ánetjaðist einnig fíkniefnum.
„Ég var svo týndur og var orðinn háður kókaíni,“ sagði Cooper hreinskilningslega í hlaðvarpsþættinum Windery's SmartLess sem leikararnir Jason Bateman, Will Arnett og Sean Hayes stýra.
Cooper sagðist alla tíð hafa glímt við lágt sjálfsálit og að það hafi haft stórvægileg áhrif á líðan hans á fyrstu árum ferilsins.
„Ég hafði gott af því að þetta gerðist þegar ég var 29 ára. Ég hélt ég væri búinn að meika það þegar mér var boðið að leika í auglýsingu fyrir Wendy's,“ sagði Cooper sem er stórleikari í kvikmyndaiðnaðinum í dag. Fréttamiðillin New York Post greindi frá.
„Ég fann ekki fyrir því að hafa slegið í gegn. Ég komst ekki inn á neina klúbba og engar stelpur gáfu mér auga,“ útskýri Cooper en á þessum tíma sagðist hann hafa verið mjög þunglyndur og þurft að ganga þrautagöngu í gegnum það tímabil.
Cooper sagðist ekki hafa upplifað sig sem leikara á framabraut fyrr en hann lék í gamanmyndinni The Hangover sem kom út árið 2009. Þá var Cooper orðinn 36 ára gamall.
„Ég þurfti að ganga í gegnum þetta allt áður en frægðin gat farið að spila sitt hlutverk inni í minni tilveru á hverjum degi,“ sagði Cooper sem tók meðvitaða ákvörðun um að breyta lífi sínu og ná stjórn á því og það hefur honum tekist.