Ráðgjöf Hafró sögð „algjört rugl“

Ágúst Ómarsson, skipstjóri á Drangey SK-2, og Björn Jónasson, skipstjóri …
Ágúst Ómarsson, skipstjóri á Drangey SK-2, og Björn Jónasson, skipstjóri á Málmey SK-1, eru ekki sáttir við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Samsett mynd

„All­an hring­inn í kring­um landið erum við sjó­menn að upp­lifa mok­fiskerí bæði grunnt og djúpt og nán­ast á hvaða veiðarfæri sem er. Sjór­inn er sem sagt kjaft­full­ur af fiski. Á sama tíma ákveður Haf­rann­sókna­stofn­un að skera veiðiheim­ild­ir í þorski niður um 6% til viðbót­ar við 13,5% niður­skurð í fyrra. Í karfa er niður­skurður­inn á milli ára hvorki meira né minna en 20% enda þótt hann mokveiðist hvar sem menn bleyta í veiðarfær­um.“

Þetta skrifa þeir  Björn Jónas­son, skip­stjóri á Málmey SK-1, og Ágúst Ómars­son, skip­stjóri á Drang­ey SK-2, í pistli á vef FISK Sea­food um veiðiráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar fyr­ir næsta fisk­veiðiár.

Björn og Ágúst eru ekki fyrstu skip­stjór­arn­ir sem gagn­rýna ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar op­in­ber­lega, en á dög­un­um sagði Ei­rík­ur Jóns­son, skip­stjóri á Ak­ur­ey AK, sem sagði for­send­ur lækk­un í ráðgjöf fyr­ir gull­karfa vera „hreint bull“.

Telja skip­stjór­arn­ir Björn og Ágúst galna af­stöðu Svandís­ar Svavars­dótt­ur, mat­vælaráðherra, að fara eft­ir ráðgjöf vís­inda­manna við ákvörðum um há­marks­afla næsta fisk­veiðiárs þar sem starfs­menn Haf­rann­sókna­stofn­un­ar eru sagðir „gefa sér rang­ar for­send­ur“.

Skora þeir á Svandísi að kalla á „nokkra af reynslu­bolt­um sjó­manna­stétt­ar­inn­ar“ til fund­ar til að kynna sér „raun­veru­leik­ann í líf­ríki sjáv­ar eins og hann blas­ir við þeim sem vinna á sjón­um.“ Telja skip­stjór­arn­ir æski­legt komið yrði á sam­ráðsvett­vangi skip­stjórn­ar­manna og sér­fræðinga Haf­rann­sókna­stofn­un­ar

Á villi­göt­um

„Villi­göt­ur Hafró eru því miður alltof vel þekkt­ar á síðustu árum og ára­tug­um. Það er hins veg­ar verra þegar ráðherra mat­væla og um leið sjáv­ar­út­vegs lýs­ir því yfir fyr­ir nokkr­um dög­um að það sé stefna stjórn­valda að fara í einu og öllu að ráðgjöf þeirra sem gefa sér rang­ar for­send­ur í reikni­for­rit­um og fá fyr­ir vikið kol­vit­lausa út­komu. Hvaða póli­tíska linkind er það? Á eina ferðina enn að hneigja sig og beygja fyr­ir E-list­an­um, „Emb­ætt­is­manna­list­an­um“ sem öllu ræður en hef­ur aldrei verið kos­inn? Það er að okk­ar mati gal­in afstaða hjá ráðherra og ráðuneyti sem verður að hafa þekk­ingu og reynslu til þess að mynda sér sjálf­stæða skoðun á því hvað sé rétt og rangt þegar um er að ræða verðmæti sem skipta tug­um eða jafn­vel hundruðum millj­arða króna fyr­ir þjóðarbúið,“ skrifa þeir.

Fagna þeir Björn og Ágúst því að á und­an­förn­um áatug­um hafa verið ráðherr­ar sjáv­ar­út­vegs­mála sem kosið hafa að fara þvert á ráðlegg­ing­ar Haf­rann­sókna­stofn­un­ar, og full­yrða að ekki hafi verið sýnt fram á að ákv­arðanir stakra ráðherra um að hafna ráðgjöf og auka kvóta hafi haft al­var­leg­ar af­leiðing­ar.

„Við höf­um fylgt vís­inda­legri ráðgjöf um fisk­veiðarn­ar að veru­legu leyti í 30 ár og síðustu 5-6 árin án nokk­urra und­an­tekn­inga. En alltaf minnk­ar til­trú sjó­manna á að rétt sé að mál­um staðið. Sjór­inn er alls staðar spriklandi af lífi en samt er skorið niður eins og eng­inn sé morg­undag­ur­inn. Ráðgjöf­in er ekki bara að okk­ar mati, held­ur lang­flestra reynd­ustu skip­stjóra og sjó­manna lands­ins, al­gjört rugl,“ skrifa skip­stjór­arn­ir.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina