Lilja Rafney Magnúsdóttir, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, gagnrýnir Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra harðlega fyrir áætlanir um að taka upp svæðaskiptingu á kvóta strandveiðanna á nýjan leik.
Lilja Rafney segir Svandísi kjósa að brjóta niður núverandi kerfi sem mikil þverpólitísk vinna hafi verið lögð í, í stað þess að tryggja nægar aflaheimildir fyrir strandveiðikerfið í 48 daga á öllu landinu.
„Ég er hugsi yfir því hvort ég eigi samleið með Vinstri grænum lengur þegar svo illa ígrundaðar ákvarðanir eru gerðar án samráðs þvert á stefnu VG um að efla Strandveiðar!“ skrifar Lilja Rafney á facebooksíðu sína.
Smábátasjómenn á Norðausturlandi eru afar óánægðir með fyrirkomulag strandveiða og telja það fela í sér grófa mismunun á milli veiðisvæða, eins og fram kom í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í gær.