„Mikil tækifæri“ í kaupunum

Síldarvinnslan sér fyrir sér mikil tækifæri í kaupum á Vísi.
Síldarvinnslan sér fyrir sér mikil tækifæri í kaupum á Vísi. Ljósmynd/Guðlaugur B. Birgisson

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað, telur að kaup félagsins á Vísi hf. í Grindavík ættu að efla samkeppnisstöðu sjávarútvegs og þjónustu í Grindavík. Er þetta haft eftir honum í fréttatilkynningu um kaupin til Kauphallarinnar í kvöld.

„Kaupandi og seljendur eru sammála um að með þessum viðskiptum er verið að styrkja bæði félögin til framtíðar. Starfsemin verður öflugri og tryggir samkeppnishæfni til lengri tíma litið,“ er haft eftir Gunnþóri.

Höfuðstöðvar bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar verða hjá Vísi í Grindavík.

„Enda þar starfrækt hátæknivinnsla og mikil þekking og mannauður til staðar. Við sjáum fyrir okkur mikil tækifæri á vinnslu sjávarafurða í Grindavík, meðal annars vegna aukins fiskeldis á svæðinu á komandi árum.“

Verða kjölfjárfestar í öflugu félagi

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, segir eigendur félagsins fullvissa um að forsendur þess að byggja upp bolfiskvinnsluna í Grindavík séu réttar og muni standast tímans tönn, en með kaupunum verði eigendur Vísis á meðal annarra kjölfestufjárfesta í Síldarvinnslunni, að því er haft eftir honum í tilkynningu um kaupin.

Þegar við bætast svo allir möguleikarnir sem tengjast laxeldinu getum við ekki annað en verið bjartsýn og þakklát fyrir að vera þátttakendur í þessari vegferð og þeirri framtíðarsýn sem hér er lögð til grundvallar í okkar heimabyggð,“ er haft eftir Pétri.

Þá séu eigendurnir stoltir af starfsfólki Vísis sem fái með þessu enn frekari tækifæri til þess að takast á við öfluga atvinnusköpun í Grindavík. „Þessi atriði gera þessa stóru ákvörðun okkar léttari.“ 

mbl.is