Lífeyrissjóðir hagnast á Síldarvinnslunni

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Lífeyrissjóðir fara með um 20% hlut …
Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Lífeyrissjóðir fara með um 20% hlut í Síldarvinnslunni og hefur verðmæti hluta þeirra hækkað um 13,4 milljarða á undanförnum 12 mánuðum. Ljósmynd/Síldarvinnslan/Ómar Bogason

Alls hefur markaðsvirði hluta lífeyrissjóða í Síldarvinnslunni hf. aukist um 13,4 milljarða króna á síðastliðnum 12 mánuðum eða 61%. Sjö lífeyrissjóðir fara samanlagt með tæplega fimmtungshlut í sjávarútvegsfyrirtækinu og hafa því þúsundir sjóðsfélaga hagnast á útgáfu óvenjumikils loðnukvóta og kaupum á Vísi hf. í Grindavík. Virði hluta lífeyrissjóðanna í Síldarvinnslunni er nú rúmlega 35 milljarðar króna.

Þann 12. júlí 2021 var gengi bréfa Síldarvinnslunnar 65,1 króna á hlut en á þriðjudag var gengi bréfanna við lokun markaða 105 krónur á hlut.

Mikil hækkun á gengi bréfanna fór af stað undir lok september í fyrra þegar fóru að berast fréttir af því að loðnuvertíðin yrði óvenjustór og hélt hækkunarskeiðið áfram eftir að tilkynnt var um mesta loðnukvóta í tvo áratugi í byrjun október. Þá átti sér einnig stað mikil hækkun á gengi bréfanna í kjölfar þess að Síldarvinnslan tilkynnti á sunnudag kaup á Vísi í Grindavík.

Sjö milljarðar til Gildis

Sjóðurinn sem fer með stærsta hlutinn í Síldarvinnslunni er Gildi og er hann með 10,21% að verðmæti 18,2 milljarðar króna samkvæmt markaðsvirði við lokun markaða á þriðjudag. Alls hefur gengishækkunin skilað Gildi tæplega sjö milljörðum króna.

Þá er Stapi með 2,97% hlut á 5,3 milljarða, Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 1,94% á tæpa 3,5 milljarða, Festa með 1,46% á 2,6 milljarða, Almenni lífeyrissjóðurinn 1,4% á 2,5 milljarða, Brú með 1,17% á rétt rúma 2 milljarða og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja með 0,61% á milljarð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: