Breska auglýsingaeftirlitið (Advertising Standards Authority) hefur tekið niður Instagram-færslu hjá áhrifavaldinum og fyrrverandi Love Island-keppandanum Molly-Mae Hauge. Er þetta þriðja færslan á tveimur árum sem auglýsingaeftirlitið tekur niður hjá áhrifvaldinum.
Ástæða þess að færsla áhrifavaldsins var tekin niður er sú að henni ljáðist að merkja skilmerkilega að um auglýsingu væri að ræða. Í færslunni var hún í kjól frá merkinu Pretty Little Thing en hún er einmitt listrænn stjórnandi hjá fyrirtækinu.
Auglýsingaeftirlitið sagði það ekki nógu skýrt að Hauge hagnaðist beint af færslunni. Í samningi áhrifavaldsins við PLT kemur fram að hún þarf að merkja færslur sínar skilmerkilega þegar hún auglýsir fyrir fyrirtækið á sínum eigin reikningi. Á hún að nota merkið £ad við færslur sínar.
Breska auglýsingaeftirlitið hefur á undanförnum árum farið hart fram gegn vinsælum áhrifavöldum þar í landi og ítrekað bent á brot gegn reglum um auglýsingar. Þar í landi eru reglurnar frekar einfaldar, sé um að ræða auglýsingu eða fái áhrifavaldur greitt fyrir að fjalla um vöru á samfélagsmiðlum, skal merkja færsluna með myllumerkinu #ad.
Molly-Mae Hauge er með um 6,4 milljónir fylgjenda á Instagram og auglýsir reglulega verkefni sín hjá Pretty Little Things.
Sambærilegar reglur eru í gildi hér á Íslandi um auglýsingar á samfélagsmiðlum. Þurfa áhrifavaldar að merkja færslur sem þeir fá greitt fyrir og einnig merkja ef um er að ræða samstarf.