Ella Stiller, dóttir leikarans Bens Stiller, kom hingað til lands í júlí ásamt föður sínum. Hin unga Stiller birti fjölda mynda úr heimsókninni og virðist heldur betur ánægð með landið.
Eins og greint var frá fyrr í mánuðinum, kom leikarinn hingað til lands og hitti meðal annars leikarann Ólaf Darra Ólafsson en þeir léku saman í kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty hér á landi fyrir tíu árum.
Með Stiller-feðginunum voru fjöldi vina og fjölskyldumeðlima sem einnig virðast hafa verið ánægðir með ferðina. Ólafur Darri virðist hafa staðið sig í stykkinu við að sýna þeim landið okkar og fór meðal annars með þau í buggy-bílaferð.
Hópurinn heimsótti svo Friðheima, fór á hestbak og baðaði sig í Sky Lagoon og fleiri baðlaugum.