Leikkonan Priyanka Chopra fagnaði 40 árum á ströndinni í Cabo San Lucas í Mexíkó í faðmi fjölskyldu og vina. Eiginmaður Chopra, tónlistarmaðurinn Nick Jonas skipulagði ferðina sem virtist heppnast sérlega vel.
„Bara stelpa og afmælishópurinn hennar. Ég er svo þakklát og þakklát fyrir að vera umvafin svona mikilli ást og fá að eyða tíma með mínum nánustu,“ skrifaði Chopra undir myndaröð sem hún deildi á Instagram reikningi sínum á dögunum.
Chopra hrósaði eiginmanni sínum mikið fyrir veisluna, sem að hennar sögn var fullkomin. „Orð duga ekki til að þakka þér fyrir eftirminnilegasta afmælið. Þú veist í raun hvernig á að elska. Ég er heppin stelpa,“ bætti hún við.
Hjónin eignuðust sitt fyrsta barn í janúar síðastliðnum. Stúlkan, sem hefur fengið nafnið Malti Marie Chopra Jones, kom í heiminn með aðstoð staðgöngumóður.