Humarinn mjög kresinn á búsvæði

„Humarinn veiðist þegar hann er orðinn um fimm ára gamall …
„Humarinn veiðist þegar hann er orðinn um fimm ára gamall eða eldri og mátti sjá af veiðum 2010 að nýliðunarbrestur virtist vera að eiga sér stað,“ segir Jónas. mbl.is/Hákon

Leit­un er að betra sjáv­ar­fangi en ís­lensk­um let­ur­humri og því ekki skrítið ef það fær sæl­kera til að ókyrr­ast, hve bág­borið ástand let­ur­humarstofns­ins er orðið. Sér­fræðing­ar Haf­rann­sókna­stofn­un­ar fylgj­ast vand­lega með humr­in­um og má greina vís­bend­ing­ar um að stofn­inn kunni að styrkj­ast þegar fram í sæk­ir.

Jón­as Páll Jóns­son er fiski­fræðing­ur hjá Hafró og tók þátt í áhuga­verðri nýrri rann­sókn, þar sem hljóðmerki voru notuð til að fylgj­ast með ferðum let­ur­humars á sjáv­ar­botni og öðlast betri skiln­ing á hegðun dýrs­ins.

„Niður­stöður könn­un­ar á stofn­stærð let­ur­humars und­an­far­in tvö ár hafa leitt til þess að Haf­rann­sókna­stofn­un hef­ur ráðlagt stjórn­völd­um að leyfa eng­ar veiðar á þessu ári og því næsta,“ seg­ir Jón­as Páll. Hann bæt­ir við að það hafi mátt greina fyrstu merki um óhag­fellda þróun stofns­ins árið 2010. „Humar­inn veiðist þegar hann er orðinn um fimm ára gam­all eða eldri og mátti sjá af veiðum 2010 að nýliðun­ar­brest­ur virt­ist vera að eiga sér stað og hef­ur þá byrjað árin 2005 og 2006. Var líf­massi let­ur­humars í há­marki árið 2009 en yngri humar­inn af­skap­lega lít­ill og lé­leg­ur, þótt næstu árin á eft­ir hafi enn veiðst vel af stór­um humri, sem oft er orðinn 15 til 20 ára.“

Leturhumarinn unir sér best þar sem sjávarbotninn er leirkenndur.
Let­ur­humar­inn unir sér best þar sem sjáv­ar­botn­inn er leir­kennd­ur. Ljós­mynd/​Haf­rann­sókna­stofn­un

Hlé­dræg­ur holu­búi

Íslensk­ur let­ur­hum­ar unir sér best út af land­inu sunn­an­verðu, þar sem sjáv­ar­botn­inn er leir­kennd­ur. Þar gref­ur hann sér hol­ur til að búa í, á um 100 til 250 metra dýpi, og verða hol­urn­ar jafn­vel að völ­und­ar­hús­um með nokkr­um opum upp á yf­ir­borðið. Benda rann­sókn­ir til að humar­inn sé ekki mjög fé­lags­lynd­ur, nema á fengi­tíma, og að karldýr­in verji sín yf­ir­ráðasvæði af hörku. Kven­dýr­in virðast fara stutt frá sinni holu en karldýr fara yfir stærra svæði. Meiri óvissa er með unga humar­inn, þegar hann nær því þroska­skeiði að verða botn­læg­ur. Þó er talið að hann dvelji jafn­vel í minni hol­um inn af hol­um eldri dýra.

„Eft­ir klak geyma kven­dýr­in frjóvguð egg­in und­ir hal­an­um á sér og eru meira og minna ofan í hol­unni sinni all­an vet­ur­inn en sleppa lirf­un­um að vori og verða þær þá svif­læg­ar,“ út­skýr­ir Jón­as. Ein senni­leg skýr­ing á slæmu ástandi stofns­ins er að aðstæður í upp­sjón­um hafi versnað og að humarl­irf­urn­ar hafi skort nær­ingu til að vaxa og lifa af.

Humarinn hefur verið verðmætur nytjastofn, en engin veiði hefur verið …
Humar­inn hef­ur verið verðmæt­ur nytja­stofn, en eng­in veiði hef­ur verið und­an­farið. mbl.is/​Sig­urður Bogi

„Í dag erum við að upp­lifa hlý­inda­skeið sem hófst árið 1996 í haf­inu um­hverf­is Ísland. Lengst af veiðisögu ís­lenska let­ur­humars­ins hef­ur hafið verið kald­ara sem meðal ann­ars sést á því að al­geng­ara var að haf­ís lægi við landið. Hlýrri sjór er nær­ing­arsnauðari og hita­breyt­ing­arn­ar kunna líka að hafa haft áhrif á þrosk­un eggj­anna sem kven­dýrið geym­ir yfir klaktím­ann. Breyt­ing­arn­ar gætu valdið ójafn­vægi, þar sem egg­in klekj­ast út fyrr og á óheppi­leg­um tíma. Með upp­lýs­ing­um frá gervi­hnött­um, hafa þör­unga­sér­fræðing­ar okk­ar einnig greint seink­un í há­marki vor­blóm­ans á þessu tíma­bili. Ef lirf­urn­ar mæta fyrr á svæðið sök­um hlýrri sjáv­ar, þá er enn ólík­legra að hungraðar humarl­irf­urn­ar finni æti við hæfi.“

Seg­ir Jón­as að mögu­lega sé að finna sam­svör­un í ástandi let­ur­humars og annarra stofna og get­ur t.d. verið að þau um­hverf­isáhrif sem valda sveifl­um í sandsíla­stofn­in­um hafi líka áhrif á humar­inn. Svo virðist sem sandsíla­stofn­inn hafi tekið að styrkj­ast und­an­far­in tvö til þrjú ár og kannski að það gefi til­efni til bjart­sýni um að humar­inn bragg­ist bet­ur og gæti þá verið kom­inn í veiðistærð að nokkr­um árum liðnum.

Far­inn að sjást á göml­um veiðisvæðum

Jón­as bend­ir á að hlý­inda­skeiðið í hafi sé hluti af eðli­legri sveiflu en síðast var hlý­inda­skeið á Íslands­miðum upp úr 1930 og stóð yfir fram til um 1960. Mögu­legt er að há­marki nú­ver­andi hlý­skeiðs sé náð og ef það er hita­stigið sem er að spilla fyr­ir humarstofn­in­um, ætti hann að þríf­ast bet­ur ef sjór­inn fer að kólna. Stofn­inn virðist hafa litla getu til að aðlag­ast breytt­um aðstæðum með því að flytja sig um set og seg­ir Jón­as að humar­inn sé mjög kres­inn á búsvæði. Vill hann hafa sjáv­ar­botn­inn mjög leir­kennd­an og á þeim svæðum þar sem aðeins ör­lítið magn af sandi bland­ast leirn­um eru humr­ar mun sjald­séðari.

„Þekkt­ustu veiðisvæðin eru utan við Suðaust­ur­landið og hefst humar­inn við þar í döl­um eða dýp­um sem forn­ir skriðjökl­ar grófu. Humar­inn er lítið á ferðinni og þó hann skipti stund­um um hol­ur, þá eru flutn­ing­arn­ir sam­bæri­legri við það að flytja úr Breiðholti í Kópa­vog­inn.“

Er aðlög­un­ar­get­an þó nokk­ur, því að humar­veiðimenn hafa freistað gæf­unn­ar á göml­um veiðisvæðum út af Snæ­fellsnesi og haft er­indi sem erfiði. „Þetta eru svæði þar sem hum­ar veidd­ist í kring­um 1960 en veiðarn­ar duttu síðan niður. Stak­ir humr­ar hafa líka veiðst í Ísa­fjarðar­djúpi, en ekki er til þess vitað að þeir hafi áður veiðst svo norðarlega við Ísland.“

Þurftu að vinna und­ir rauðum ljós­um

Senni­lega er ekk­ert hægt að gera til að hjálpa let­ur­humr­in­um, annað en að hlífa hon­um við veiðum og flytja á meðan inn er­lend­an hum­ar til að setja á grillið eða sjóða í súpu. Þá hjálp­ar líka að rann­saka stofn­inn vel og vand­lega og bæta þannig við þekk­ingu okk­ar á dýr­inu. Hljóðmerkja­rann­sókn­in, sem minnst var á í inn­gangi grein­ar­inn­ar, er ein­mitt til þess gerð að skilja bet­ur hvernig humar­inn hegðar sér og hvernig hann bregst við áreiti og breyt­ing­um í um­hverfi sínu.

Jón­as seg­ir aðeins eina sam­bæri­lega rann­sókn hafa farið fram, á vist­svæði humra á litlu svæði í Miðjarðar­haf­inu og var ís­lenska rann­sókn­in tölu­vert viðameiri.

Hljóðmerki sett á humar. Að störfum í rauðu myrkri í …
Hljóðmerki sett á hum­ar. Að störf­um í rauðu myrkri í Jök­ul­dýpi, frá vinstri Hjalti Karls­son, Guðjón Már Sig­urðsson og Jón­as Páll Jónas­son. Ljós­mynd/​Haf­rann­sókna­stofn­un/​Svan­hild­ur Eg­ils­dótt­ir

Var humar­inn veidd­ur af mik­illi var­kárni um miðja nótt í niðamyrkri og meðhöndlaður blíðlega af vís­inda­mönn­un­um sem festu hljóðmerki á bak humr­anna. Aðeins mátti nota rautt ljós á dekk­inu enda augu humars­ins mjög næm og gætu venju­leg­ir ljós­kast­ar­ar skaddað sjón dýrs­ins. Voru humr­arn­ir síðan látn­ir síga gæti­lega niður á hafs­botn­inn þar sem þeim var sleppt, sem næst þeim stað þar sem þeir voru veidd­ir. Loks var hljóðdufl­um komið fyr­ir með hundrað metra milli­bili á vist­svæði humr­anna til að nema og skrá hljóðið í send­un­um en hver þeirra gaf frá sér merki á um 50 sek­úndna fresti. Með því að sam­keyra upp­lýs­ing­ar úr hljóðdufl­un­um mátti staðsetja hvert hljóðmerki og greina ef hum­ar færði sig um set. Þá mátti greina hvenær humar­inn var ofan í holu sinni, því þá dempaðist eða hvarf hljóðmerkið.

Jón­as seg­ir að þó sum dýr­in hafi ekki lifað til­raun­ina af, þá hafi þau sem spjöruðu sig út­vegað rann­sak­end­um mikið magn upp­lýs­inga. Sam­hliða hljóðvökt­un­inni voru aðstæður í haf­inu á rann­sókn­ar­svæðinu skráðar af ná­kvæmni. „Gögn­in sýna okk­ur m.a. hversu marga fer­metra hvert dýr fer yfir að jafnaði og hvar ytri mörk vist­svæðis hvers ein­stak­lings liggja. Styrk­ur haf­strauma hafði greini­leg áhrif á það hvort humr­arn­ir voru á ferli eða héldu kyrru fyr­ir í hol­um sín­um og einnig hversu mik­il birta berst niður á hafs­botn­inn. Þá var mun­ur á hegðun humr­anna eft­ir því á hversu miklu dýpi þeir voru,“ út­skýr­ir Jón­as og bæt­ir við að vel sé þekkt úr afla­gögn­um sjó­manna og rann­sókn­um með humar­vörpu að þegar þör­unga­blómi demp­ar sól­ar­ljósið, fara humr­arn­ir frek­ar á kreik. Einnig ger­ist það þegar rán­fisk­ur eins og þorsk­ur­inn geng­ur yfir slóðina, að þá er lítið um hum­ar. „Humar­inn held­ur þá kyrru fyr­ir í hol­unni sinni og vænt­an­lega hjálpa þá stór nýrna­laga aug­un hon­um að sjá vel frá sér.“

Hljóðmerki límt á humar.
Hljóðmerki límt á hum­ar. Ljós­mynd/​Haf­rann­sókna­stofn­un/​Svan­hild­ur Eg­ils­dótt­ir
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: