Makrílvertíðin gengur vel að sögn Tómasar Kárasonar, skipstjóra á Beiti NK, og kom skipið til hafnar í Neskaupstað í gær með 1.900 tonna afla sem veiddist í Smugunni, en þau fimm skip sem eru í samstarfi um veiðarnar og landa hjá Síldarvinnslunni borið að landi 20 þúsund tonn það sem af er vertíð.
„Við byrjuðum á að setja eitt 350 tonna hol í Vilhelm Þorsteinsson en síðan veiddum við sjálfir í okkur að mestu. Tókum að vísu eitt 250 tonna hol frá Barða. Holin hjá okkur voru sjö talsins og í reyndinni var aflinn þokkalegur. Stærsta holið var 550 tonn. Það er töluvert af síld á svæðinu og aflinn er síldarblandaður. Í einu holinu var til dæmis 40% síld. Annars er allt gott að frétta og vertíðin gengur bara vel. Nú erum við að vinna svolítið í trollinu en það verður haldið út á ný strax að löndun lokinni,“ segir Tómas í færslu á vef Síldarvinnslunnar, sem gerir Beiti út.
Makrílaflinn hefur borist að landi jafnt og þétt að undanförnu og kom Barði NK til hafnar í Neskaupstað í morgun með 1.200 tonn. Auk Barða og Beiti taka þátt í veiðisamstarfinu skipin Börkur NK, Bjarni Ólafsson AK og Vilhelm Þorsteinsson EA. Skipin eiga eftir um 15 þúsund tonna makrílkvóta.
Aflinn í Smugunni hefur að undanförnu verið síldarblandaður og segir í færslunni að veiðisvæðið hafi verið að verið að færast fjær landinu. Skipin séu að veiðum rúmlega 600 mílur frá Norðfjarðarhorni eða austan við Jan Mayen.