Ferðaljósmyndarinn Ása Steinars og Leo Alsved gengu í hjónaband 16. júlí síðastliðinn á eyjunni Vis í Króatíu. Þótt fólk kannist kannski ekki við nafn eyjunnar hafa eflaust margir dáðst að henni í kvikmyndunum Mamma Mia sem teknar voru þar upp.
Ása skrifar fyrir Vogue í Skandinavíu og er um þessar mundir að skrifa skemmtilega brúðkaupsseríu fyrir blaðið. Nýlega kom frá henni skemmtileg færsla um undirbúning brúðkaupsins, en þar segir hún meðal annars frá gistingunni sem var einkar glæsileg.
„Villan heitir Palazzo Kut, en á kortum Google er hún kölluð „Mamma Mia 2 Sophie's House“ vegna þess að myndin fræga var tekin á eyjunni Vis og var þetta hús notað,“ skrifar Ása. Húsið, sem var byggt á 16. öld, er á besta stað í gamla bænum, Kut, með einstöku sjávarútsýni.
„Það er fallega innréttað og státar af tvennum svölum og þremur ótrúlegum görðum fullum af blómum og sítrónutrjám. Við gátum ekki ímyndað okkur betri stað til að verja brúðkaupsvikunni okkar á,“ skrifar hún. Hjónin gistu í villunni í viku ásamt foreldrum sínum, systkinum og mökum.
Í villunni eru sjö svefnherbergi og sex baðherbergi og rúmast þar allt að 15 manns. Yfir sumartímann kostar nóttin 1.400 evrur, sem gera tæpar 200 þúsund krónur.