Skipstjórinn kvíðir nýju fiskveiðiári

Vigri RE-071 kom til hafnar í Reykjavík um helgina með …
Vigri RE-071 kom til hafnar í Reykjavík um helgina með fullfermi. mbl.is/Árni Sæberg

Árni Gunn­ólfs­son, skip­stjóri á frysti­tog­ar­an­um Vigra RE, kveðst kvíða nýju fisk­veiðiári og tel­ur skerðingu í kvóta tor­velda veiðar þegar líða fer á vorið 2023. Vigri RE kom með full­fermi til hafn­ar í Reykja­vík aðfaranótt laug­ar­dags eft­ir tæp­lega mánaðarlang­an veiðitúr.

„Ég verð að segja al­veg eins og er. Ég kvíði nýju fisk­veiðiári. Það er alls staðar mikið af gull­karfa, ýsu og þorski. Í stað þess að auka við er kvót­inn skert­ur og það stefn­ir í stór­kost­leg vand­ræði þegar kem­ur fram á næsta vor,” seg­ir skip­stjór­inn Árni í færslu á vef Brims hf., sem ger­ir Vigra út.

Krökkt af ýsu

Árni seg­ir afla­brögðin á túrn­um sem var að ljúka hafa verið ágæt, en viður­kenn­ir að leita hef­ur þurft að ufs­an­um. „Þótt hann sé vand­fund­inn þá er um fjórðung­ur afl­ans ufsi.”

Leit­in að ufs­an­um byrjaði á suðasut­ur­miðum að sögn skip­stjór­ans.

„Þarna er ekk­ert um tog­ara og það tók okk­ur ekki lang­an tíma að kom­ast að því; hvers vegna? Það er allt krökkt af ýsu fyr­ir aust­an og reynd­ar við alla suður­strönd­ina. Við fór­um því á Vest­fjarðamið til að leita af ufsa á Hal­an­um. Þar var aðallega karfi og einnig ýsa en við feng­um þó dá­lítið af ufsa.“

Vigri hélt því næst á Fjöll­in út af Reykja­nesi þar sem reynt var við ufsa á nýj­an leik. ,,Alls staðar var nóg af fiski, jafnt fyr­ir norðan sem sunn­an, en gall­inn var bara sá að það var of lítið af því sem við leituðum að. Við feng­um samt tvo þokka­lega daga með ufsa­veiði á Fjöll­un­um en ann­ars var bara karfi og ýsa í boði. Við enduðum svo í Skerja­djúpi og á Matt­hildi og þar var afl­inn djúpkarfi og gulllax.”

Árni vek­ur at­hygli á hve ýsu­stofn­inn hef­ur stækkað. „Það eru ekki mörg ár síðan menn biðu spennt­ir á lín­unni eft­ir að ýsu­hólfið fyr­ir norðan væri opnað fyr­ir veiðum. Þar sést ekki skip í dag og menn sneiða hjá ýsu­hólf­um fyrri tíma sem og ýs­unni sem er alls staðar.”

mbl.is