Eins og svartamarkaður með barnapössun

„Það er hreint og beint ömurlegt að vakna oft á …
„Það er hreint og beint ömurlegt að vakna oft á nóttu til að gefa barni að drekka og þurfa svo að mæta í vinnuna og skila af sér átta tímum. Það er ekki hægt,“ segir Elísabet Erlendsdóttir og segir mikilla úrbóta þörf hvort tveggja í fæðingarorlofs- og dagvistunarmálum. Ljósmynd/Aðsend

„Stígur sonur okkar er fæddur í mars 2020 og þá var fæðingarorlof tíu mánuðir, ég tók sex mánuði og unnusti minn tók fjóra mánuði. Við erum fimm manna fjölskylda svo það er ekki í boði fyrir okkur að dreifa greiðslum úr fæðingarorlofssjóði á einhvern lengri tíma.“

Þetta segir Elísabet Erlendsdóttir, vöruflokkastjóri hjá Ekrunni og móðir í Reykjavík, sem á erfitt með að sætta sig við dagvistunarmál borgarinnar. 

Tvenn mótmæli hafa verið haldin í Ráðhúsinu í Reykjavík upp á síðkastið þar sem ósáttir foreldrar komu saman í öðru tilfellinu og slógu upp hústökuleikskóla til að vekja athygli á stöðu dagvistunarmála borgarinnar. Elísabet komst ekki á mótmælin þar sem hún var í vinnu og Stígur í pössun hjá frænku sinni. Hins vegar lét hún í sér heyra á Facebook með svofelldum orðum:

„Eigum dreng fæddan í mars 2020 og hann byrjar í aðlögun á leikskóla 29 ágúst, þá 2,5 árs. Fengum sem betur fer gott pláss hjá bestu dagmömmum bæjarins þegar fæðingarorlofi lauk (10 mánaða) og hann var þar 1 og 1/2 vetur. En að fá leikskólapláss fyrir barn þegar það er nær því að vera 3ja ára er ALGJÖR BILUN.“

„Við vorum heppin að komast að hjá frábærum dagmömmum af því við þekktum til þeirra, um leið og fæðingarorlofinu lauk,“ heldur Elísabet áfram. Þau hafi svo gert ráð fyrir að Stígur færi inn á leikskóla þá um haustið 2021, þá 18 mánaða. Það hafi hins vegar ekki gerst svo lausnin hafi verið dagmömmur áfram.

„Ég signdi mig og þakkaði öllum vættum fyrir að við höfðum þetta góða pláss því ég sá vinkonur mínar og aðra í kringum mig í miklum vandræðum. Ég sé líka reglulega í hinum ýmsu Facebook-hópum þar sem mæður óska eftir nánast bara einhverjum til að sjá um börnin sín,“ segir Elísabet frá.

„Þarf virkilega að gera meira“

Rifjar hún upp að ástandið hafi minnt hana á hálfgerðan svartamarkað með barnapössun sem sé hluti af því vandamáli að fæðingarorlof sé einfaldlega of stutt. „Það er náttúrulega ekki mál sveitarfélaganna heldur er það ríkið sem á að sjá um það. Og þó að það hafi verið lengt um einhverja tvo skitna mánuði í fyrra, upp í tólf mánuði, þá þarf virkilega að gera meira,“ segir móðirin.

Þá séu ekki allir foreldrar, og alls ekki öll börn, tilbúnir í átta klukkustunda dagvistun barna, hvort heldur það sé hjá dagmömmum, á leikskólum eða í öðrum hugsanlegum úrræðum, það sé ákaflega langur vinnudagur fyrir börn. 

„Fjölmargir sérfræðingar landsins í ungbarnaheilsu hafa bent á þetta. Hagur ungra barna er að vera sem lengst heima hjá foreldrum sínum. Ég hefði ekki farið að vinna frá sex mánaða gömlu barni nema vegna þess að ég hafði ekki annað val. Það er hreint og beint ömurlegt að vakna oft á nóttu til að gefa barni að drekka og þurfa svo að mæta í vinnuna og skila af sér átta tímum. Það er ekki hægt,“ segir Elísabet.

Sumarfrí hvort í sínu lagi

Hvort er þá meira vandamál að mati Elísabetar, of stutt fæðingarorlof eða hörgull á leikskólaplássum?

„Ja, þau eru álíka stór myndi ég segja,“ svarar Elísabet og segir stöðuna nú í sumar þannig að þau foreldrarnir hafi tekið mánuð í sumarfrí hvort í sínu lagi og verið með Stíg sem svo hafi farið í pössun hjá frænku sinni.

„Svo fer maðurinn minn aftur í sumarfrí og svo byrjar aðlögunin [fyrir leikskóla] 29. ágúst. Hann er í fyrsta hollinu í aðlögun og svo eru tvö önnur holl sem byrja um miðjan september og í lok september,“ segir Elísabet.

Hún kveðst í raun ekki vita hvað borgin ætti að gera í leikskólamálum.

„Ég trúi því alveg að þar sé fólk að reyna sitt besta, nú er búið að vera að vinna að þessari leikskólaáætlun í minnst átta ár, spá fyrir um mannfjölda og allt sem því fylgir. Fólksfjölgunin er bara miklu hraðari en svo að hlutirnir gangi upp sem er leiðinlegt og erfitt fyrir alla,“ segir þessi móðir í Reykjavík að lokum.

mbl.is