Það urðu mikil sýnileg umskipti á hári leikkonunnar og spjallþáttastjórnandans Ricki Lake þegar hún fór að nota ákveðnar hárvörur að staðaldri. Lake sýndi ótrúlegan árangur sem hárvörurnar hafa borið á Instagram-reikningi sínum nýverið. Lake hefur lengi glímt við hárlos en hún opnaði sig fyrst um vandann fyrir aðdáendum sínum árið 2020 með myndafærslum á samfélagsmiðlum.
Hárlosið hefur haft gífurleg áhrif á Lake og þá einna helst á andlega heilsu hennar. Í færslu sem Lake ritaði á Facebook fyrir um tveimur árum sagði hún það hafa tekið verulega á að halda hárlosinu leyndu fyrir umheiminum.
„Þetta hefur verið heftandi, vandræðalegt, sársaukafullt, skelfilegt, niðurdrepandi, skömmustulegt, einmanalegt. Allt í senn,“ er meðal annars sem hún sagði á sínum tíma en vegna hárlossins viðurkenndi Lake að hafa leitt hugann að því að taka sitt eigið líf.
„Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir að ég hef fundið fyrir sjálfsvígshugsunum vegna þessa. Enginn í mínu lífi vissi hversu djúpan sársauka og áfall ég var að upplifa,“ er haft eftir Lake sem virðist hafa liðið vítiskvalir þegar hárlosið var sem verst.
Fyrr í vikunni deildi Lake fyrir og eftir myndum af hári sínu eftir að hún komst í kynni við vörumerkið Hårklinikken. Fréttamiðillinn People greindi frá.
„Ég gæti ekki verið ánægðari með þennan árangur og að vera loksins sátt eftir erfiða baráttu við hárlosið. Þessar hliðar sýna þann stórkostlega árangur sem ég hef náð,“ skrifaði Lake alsæl við myndafærsluna.