Beint: Vígsla minningarreits Síldarvinnslunnar

Minningareitur Síldarvinnslunnar er vígður í dag.
Minningareitur Síldarvinnslunnar er vígður í dag. Ljósmynd/Síldarvinnslan: Hlynur Sveinsson

Vígsla minningarreits sem helgaður er þeim sem látist hafa við störf hjá Síldarvinnslunni fer nú fram í Neskaupstað. Reiturinn er á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar sem eyðilagðist í snjóflóði 20. desember 1974, en þá fórust sjö.

„Það er einlæg von forsvarsmanna Síldarvinnslunnar að minningareiturinn verði fallegur og friðsæll staður sem fólki þykir vænt um og beri virðingu fyrir. Það er sorgleg staðreynd að 12 menn hafa látist í störfum fyrir Síldarvinnsluna og vill fyrirtækið minnast þeirra með veglegum hætti,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, sem segir jafnfram daginn sem sjö fórust 1974 vera án efa mesta sorgardag í sögu fyrirtækisins og Neskaupstaðar.

Unnið hörðum höndum

„Að undanförnu hefur verið unnið hörðum höndum að gerð reitsins. Margir hafa fylgst með framkvæmdunum af áhuga og hafa viðbrögðin verið afar jákvæð. Ég tel að reiturinn sé mjög vel heppnaður og hann eigi eftir að verða Síldarvinnslunni til sóma. Ég held að reiturinn verði vel sóttur af öllum þeim sem vilja minnast hinna látnu og hann verði vinsæll áningastaður fyrir bæjarbúa og gesti. Enn á eftir að ljúka framkvæmdum neðan við grunn gömlu verksmiðjunnar en stefnt er að því að ljúka þeim hluta næsta vor. Þegar því verður lokið má njóta fegurðar fjarðarins með einstökum hætti og í friði og ró,“ segir Gunnþór.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.

Hann útskýrir að í tilefni 60 ára afmælis Síldarvinnslunnar árið 2017 hafi verið ákveðið að láta gera minningareit sem helgaður yrði sögu fyrirtækisins og þeim sem látist hafa í störfum hjá því.

Árið 2018 var efnt til samkeppni um útfærslu á reitnum. Átta tillögur bárust og voru þær metnar af dómnefnd. Niðurstaðan var sú að tillaga Kristjáns Breiðfjörð Svavarssonar varð fyrir valinu en einnig hluti af tillögu Ólafíu Zoëga. Á grundvelli tillagnanna tveggja hannaði Landmótun – landslagsarkitektar svæðið.

mbl.is