Dagmæðrum vísað úr ónýtu húsnæði borgarinnar

Dagmæðrunum er tjáð að til standi að rífa húsið. Mynd …
Dagmæðrunum er tjáð að til standi að rífa húsið. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Tvær dagmæður eru afar ósáttar með vinnubrögð Reykjavíkurborgar er varðar húsnæði þar sem þær starfa og segjast hafa staðið í stríði í meira en ár. Þær segja að „borgin sé með allt niður um sig í málum dagforeldra.“

„Okkar hús er eitt af þeim húsum borgarinnar sem er að hruni komið og ekki höfðum við hugmynd um þetta þegar við tókum húsið á leigu,“ segir í yfirlýsingu frá dagmæðrunum Margréti og Sirrý, en þær starfa saman í húsnæði við Vesturberg í Breiðholti, sem þær leigja af borginni.

Þegar þær komu auga á skemmdir hafi þær bent á það og smiðir hafi komið og lagað það sem hægt var. Nú sé þeim aftur á móti tjáð að til standi að rífa húsið.

Vildu annað húsnæði í staðinn

„Við vorum búnar að sækja hart að því að fá annað húsnæði sem var búið að vera autt í mörg ár og er hérna í sama hverfi og við vinnum í,“ segir í yfirlýsingunni og er átt við húsnæði í Völvufelli.

Sendu þær tölvupósta á þá sem þeim var bent á að hafa samband við til að fá upplýsingar um húsnæðið. Þeim hafi hins vegar yfirleitt verið svarað „seint, illa eða aldrei“. Svörin hafi þá verið á þá leið að umrætt húsnæði væri ekki til leigu. Ef það færi í útleigu yrði það þó auglýst.

„Við héldum nú samt áfram að reyna með Völvufellið því jú okkar hús er ónýtt og okkur sagt að það yrði ekki gert neitt meira fyrir það hús, það yrði rifið.

Við spyrjum þá auðvitað hvað við ættum að gera, við erum með 10 börn í gæslu og biðlista og við værum ekki að fara að henda börnunum út á gaddinn og bentum á að ekki væri nú borgin í góðum málum varðandi leikskólapláss.“

Tilboðinu hafnað og leigunni sagt upp

Völvufellið hafi síðar verið auglýst til leigu og sóttu dagmæðurnar um. Einhverju síðar var þeim tilkynnt að alls hefðu tvö tilboð borist og að þær fengju ekki húsið þar sem hitt tilboðið hefði verið hærra.

„Auðvitað vorum við ekki sáttar og spurðum hvort við mættum ekki bjóða hærra eins og hægt væri með öll önnur tilboð.“ Svarið hafi þá verið nei.

Skömmu síðar hafi þær fengið tölvupóst frá lögfræðingi hjá eignaskrifstofu borgarinnar um að þeim væri hér með sagt upp leigunni í Vesturbergi og bæri að fara út síðasta dag júnímánaðar.

Segja þær að þær hafi ítrekað reynt að tala við einhvern hjá borginni í Ráðhúsinu og Borgartúni en enginn hafi hingað til getað svarað þeim.

mbl.is