Skoða þurfi alla möguleika til að brúa bilið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir það vera mikilvægt samfélagsverkefni að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla.

„Það hefur verið rætt að það þurfi að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og þar þarf að skoða alla þá möguleika sem geta komið til,“ segir Guðmundur Ingi, spurður hvort til greina komi að lengja fæðingarorlof.

„Rannsóknir sýna að það er gott fyrir lífsgæði barns að geta verið lengur hjá foreldrum sínum og það er svona ákveðið grundvallaratriði sem mér finnst að beri að horfa til.

Að því leytinu til þá horfi ég til þess að það sé einmitt einn möguleikinn að ráðast í eitthvað slíkt.“

Umræða um leikskólamál hafi áhrif

Guðmundur Ingi segist þó ætla að bíða með frekari yfirlýsingar um lengra fæðingarorlof.

„Hvaða leiðir verði nákvæmlega farnar í því að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla liggja ekki fyrir á þessari stundu og ekki komnar fram sérstakar tillögur þar að lútandi, en þetta er verkefni sem þarf að vinna.“

Hann telur að sú umræða sem skapast hefur um leikskólamálin ýti undir að tekist verði á við verkefnið. Þetta sé klárlega verkefni sem ríki og sveitarfélög þurfi að ná utan um í sameiningu.

mbl.is