Óvenju fáir nýnemar í íslensku

„Það sem stjórnvöld geta komið að er að styðja betur …
„Það sem stjórnvöld geta komið að er að styðja betur við bókaútgáfu á íslensku, íslenska kvikmyndagerð og svo framvegis,“ segir Eiríkur m.a. mbl.is/Hari

Þrettán nýnemar eru skráðir í íslensku við Háskóla Íslands þetta árið. Nýnemar í greininni eru óvenju fáir miðað við síðustu ár þar sem þeir hafa verið um 30 talsins. Það er íslenskufræðingurinn Eiríkur Rögnvaldsson sem bendir á þetta í pistli sem hann birti á heimasíðu sinni í dag.

Upplýsingar um fjölda skráðra nemenda á önn er hægt að sjá hér.

Margslungið vandamál

Ástæður sem liggja að baki lágs hlutfalls nýnema í íslensku eru ýmsar að mati Eiríks.

„Þetta er örugglega margslungið, en það eru rannsóknir sem sýna að nemendum í grunnskólum og framhaldsskólum finnist íslenska sem kennslugrein óspennandi og það hefur áhrif á viðhorf þeirra til íslensku sem tungumáls,“ segir Eiríkur.

Eiríkur Rögnvaldsson.
Eiríkur Rögnvaldsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá kemur fram í rannsóknum að þegar nemendur eru spurðir hvað þeim dettur í hug þegar einhvern nefnir íslensku þá segja þeir leiðréttingar, orðflokkagreiningar og þess háttar.

Þegar þeir eru svo spurðir hvað þeim dettur í hug þegar einhver nefnir ensku þá segja þeir skemmtun, afþreying, ferðalög og fleira í þeim dúr.

Orðin ónæm fyrir enskunni

Eiríkur bendir líka á að Íslendingar eru margir hverjir orðnir ónæmir fyrir aukinni enskunotkun, þá til dæmis í sjónvarpi, auglýsingum og afþreyingarefni. Fleiri dæmi eru um að auglýsingar á Íslandi séu á ensku, t.d. auglýsing fyrir haframjólkina Oatly, sem þó var þýdd yfir á íslensku eftir að Eiríkur sendi Inness, sem flytur inn vöruna, bréf.

„Það sem stjórnvöld geta komið að er að styðja betur við bókaútgáfu á íslensku, íslenska kvikmyndagerð og svo framvegis. Það má ekki vera að allt spennandi afþreyingarefni sé á ensku. Við erum líka orðin allt of ónæm fyrir enskunni. Við erum svo vön því að efni sé á ensku að við tökum ekki eftir því.“

„Ungt fólk elst upp við að enskan sé allt í kring og það elst upp við það að við sem erum eldri látum þetta gerast án þess að gera athugasemdir. Því þýðir ekkert að vera að skamma unga fólkið fyrir að tala ensku þegar við gerum ekkert í þessu,“ segir Eíríkur að endingu.

Sjaldan hafa færri nýnemar verið skráðir í íslensku við Háskóla …
Sjaldan hafa færri nýnemar verið skráðir í íslensku við Háskóla Íslands. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
mbl.is