Friðjón Ingi Guðmundsson segir strandveiðar ekki eins rómantískar og margir halda. „Sumir sjá fyrir sér roskinn sjómann halda út á miðin í lopapeysu í góða veðrinu við sólarupprás, en raunin er að þetta er hörkuvinna og dagurinn byrjar iðulega klukkan fjögur eða fimm á morgnana. Tekur þá við að leita að fiskinum og getur leitin varað fram eftir degi.“
Í síðasta blaði 200 mílna segir Friðjón Ingi, sem gerir út bátinn Fíurún SH-13 frá Stykkishólmi, frá því að strandveiðar sumarsins hafi gengið ágætlega sumar og hefði hann gjarnan viljað fá að fiska lengur en til 21 júlí, þegar strandveiðipotturinn kláraðist.
„Það kom kannski aldrei almennilegt sumar en það viðraði ágætlega til fiskveiða hér hjá okkur í Breiðafirðinum og við náðum flestum veiðidögunum okkar. Svo kláraðist heildarpotturinn, og það þrátt fyrir að stjórnvöld hefðu bætt við pottinn,“ segir Friðjón Ingi.
Hann segir nýafstaðna vertíð hafa sýnt vel ókosti þess að skipta strandveiðikerfinu upp í fjögur svæði og telur þurfa að gera strandveiðikerfið einfaldara og sanngjarnara.
Viðtalið má lesa í heild sinni í 200 mílum, sérblaði Morgunblaðsins um sjávarútveg.