149 sóttu sjávarútvegsskólann fyrir norðan

Nemendur Sjávarútvegsskóla unga fólksins heimsóttu m.a. ÚA á Akureyri
Nemendur Sjávarútvegsskóla unga fólksins heimsóttu m.a. ÚA á Akureyri Ljósmynd/Samherji

Sjávarútvegsskóli unga fólksins við Eyjafjörð og Fjallabyggð var vel sóttur í sumar. Alls voru 149 nemendur að þessu sinni og var kennt í átta vikur, tvær þeirra voru tvísetnar.

Þetta kemur fram á vef Samherja, en fyrirtækið er einn af aðalstyrktaraðilum Sjávarútvegsskóla unga fólksins og heimsækja nemendurnir m.a. fiskvinnslur ÚA og Samherja á Akureyri og Dalvík. Í ár voru nemendur á Dalvík 15 og á Akureyri 118. Á Dalvík var kennt í grunnskólanum og á Akureyri í Háskólanum á Akureyri.

Um er að ræða sumarskóla fyrir ungmenni á aldrinum 13 til 16 ára og er starfræktur víða um land. Skólinn er samtarfsverkefni Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri, fyrirtækja í sjávarútvegi og vinnuskóla ýmissa sveitarfélaga.

„Námsfyrirkomulag er breytilegt eftir byggðarlögum og kennt er 4-5 klukkustundir á dag, nokkra daga vikunnar. Námið er í formi fyrirlestra og verklegra æfinga og leikja, heimsókna á söfn, sjávarútvegsfyrirtæki og í fiskiskip,“ segir á vef Samherja.

mbl.is