Gott veður og ágætis veiði hjá Málmey

Ágætis veiði hefur verið hjá skipum FISK Seafood í upphafi …
Ágætis veiði hefur verið hjá skipum FISK Seafood í upphafi fiskveiðiársins. mbl.is/Björn Jóhann

„Við vorum fimm sólarhringa á veiðum og vorum á Þverálshorni, Sneiðinni og Strandagrunni. Veiðarnar gengu vel og það var blíða allan túrinn,“ segir Þórarinn Hlöðverssons, skipstjóri á Málmey SK-1, um síðasta túr í færslu á vef FISK Seafood. Málmey SK1 kom til hafnar á Sauðárkróki í dag og nam aflinn 159 tonnum. Uppistaða aflans er þorskur og ufsi.

Málmey SK1 landaði síðast 1. september, þá einnig á Sauðárkróki. Aflinn var um 150 tonn, mest af þorski, eða um 70 tonn, svo rúm 40 tonn af ufsa og 28 tonn af ýsu. „Við vorum fjóra sólarhringa á veiðum, þrjá á Þverálshorni í þorsk og ufsa. Síðasta sólarhringinn norður af Horni í ýsu. Það var ágætisveiði allan tímann og gott veður,“ var haft eftir Hermann Einarsson, skipstjóra á Málmey.

Skip útgerðarinnar hafa átt ágæta byrjun á fiskveiðiárinu og landaði Drangey SK-2 á Sauðárkróki á mánudag um 148 tonnum af blönduðum afla, þar af um 117 tonn af þorski. Drangey hafði meðal ananrs verið á veiðum á Sporðagrunni og Þverálshorni.

145 tonnum landað á Grundarfirði

Þá hafa skip útgerðarinnar einnig landað á Grundarfirði. Fyrst Sigurborg SH-12 sem kom á mánudag til hafnar með 79 tonn af blönduðum afla eftir veiðar á Látragrunni.

Síðan fylgdi Farsæll SH-30 sem landaði 66 tonnum á Grundarfirði í gær, þar af um 19 tonnum af karfa og 14 tonnum af þorski. Farsæll hafði meðal annars verið á veiðum á Agötu.

Grundarfjarðarskipin Farsæll SH 30 og Sigurborg SH 12.
Grundarfjarðarskipin Farsæll SH 30 og Sigurborg SH 12. Mbl.is/Alfons Finnsson
mbl.is