„Við getum ekki bara hugsað um okkur“

Aukin skriðuföll eru meðal þeirra þátta sem huga þarf betur …
Aukin skriðuföll eru meðal þeirra þátta sem huga þarf betur að í náinni framtíð, vegna loftslagsbreytinga. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Áhrif lofts­lags­breyt­inga munu stór­auka hætt­una sem steðjar að íbú­um sveit­ar­fé­laga lands­ins vegna nátt­úru­vár. Auk­in flóðahætta, tíðari gróður- og skógar­eld­ar, breyt­ing á ár­far­veg­um og auk­in skriðuföll eru meðal þeirra þátta sem huga þarf bet­ur að. Þetta kom fram á ráðstefnu um áhrif lofts­lags­breyt­inga á sveit­ar­fé­lög­in í land­inu og aðlög­un­araðgerðir.

Yf­ir­maður skrif­stofu lofts­lagsþjón­ustuaðlög­un­ar hjá Veður­stofu Íslands seg­ir mikla vinnu framund­an við að aðlag­ast breytt­um veru­leika og að kort­leggja þurfi öll svæði á Íslandi út frá nátt­úru­vá. 

Þá þurfi einnig að draga sam­an upp­lýs­ing­ar sem feng­ust við gerð hættumats og gera þær aðgengi­legri sveit­ar­fé­lög­um sem hætta steðjar að vegna of­an­flóða eða annarr­ar nátt­úru­vár.

Vilja vekja fólk til um­hugs­un­ar

Ráðstefna um áhrif lofts­lags­breyt­inga á sveit­ar­fé­lög­in í land­inu og aðlög­un­araðgerðir fór fram á Grand Hót­el á mánu­dag­inn. 

Á meðal þeirra sem tóku til máls á ráðstefn­unni var Anna Hulda Ólafs­dótt­ir, yf­ir­maður skrif­stofu lofts­lagsþjón­ustuaðlög­un­ar hjá Veður­stofu Íslands, sem hélt er­indi sem bar yf­ir­skrift­ina Áhrif og aðlög­un að lofts­lags­breyt­ing­um á Íslandi: Hvað er framund­an?

„Það vant­ar al­veg hik­laust að fólk geri sér enn þá bet­ur grein fyr­ir þessu, en það er líka hluti af því sem við erum að reyna að gera með þess­ari skrift­stofu, sem er árs göm­ul hjá Veður­stof­unni, að fólk hafi bet­ur skiln­ing á því hvað þetta þýðir allt,“ seg­ir Anna Hulda að ráðstefnu lok­inni í sam­tali við mbl.is, spurð um hve meðvitaða hún telji Íslend­inga um þau áhrif sem lofts­lags­breyt­ing­ar kunnu að hafa á land og þjóð.

Anna Hulda Ólafsdóttir.
Anna Hulda Ólafs­dótt­ir. mbl.is/​Sig­urður Bogi

Hnatt­rænt vanda­mál

Að sögn Önnu Huldu stend­ur Ísland nokkuð vel þegar kem­ur að bein­um áhrif­um af völd­um lofts­lags­breyt­inga ef við ber­um okk­ur sam­an við aðrar þjóðir. Íslend­ing­ar þurfi þó klár­lega að huga bet­ur að áskor­un­um sem séu þvert á landa­mæri enda séu lofts­lags­breyt­ing­ar hnatt­rænt vanda­mál.

„Við get­um ekki bara hugsað um okk­ur. Við erum öll svo tengd, við erum ekki bara að tala um vist­fræðileg kerfi og nátt­úru­fræðileg kerfi held­ur líka fé­lags­kerfi og svo við töl­um bara um mat­væla­ör­yggi – við erum ekk­ert rosa­lega sjálf­stæð þegar að við horf­um á það. Við þurf­um að passa okk­ur að gera okk­ur ekki of háð ákveðnum þjóðum.“

Þá nefn­ir hún einnig raf­orku í því sam­hengi.

„Í raun­inni gæti maður sagt að það að breyta orku­kerf­inu okk­ar meira í raf­orku sé bæði aðlög­un­araðgerð og mót­vægisaðgerð af því að vissu­lega er minni út­blást­ur og um­hverf­i­s­vænna að hafa raf­orku held­ur en aðra óum­hverf­i­s­vænni orku­gjafa. En að sama skapi erum við að gera okk­ur minna háð öðrum og þar af leiðandi erum við að aðlaga okk­ur að því að geta tek­ist á við ýms­ar áskor­an­ir.“

„Þurf­um að vera með betri spá“

Meðal þeirra sem tóku til máls á ráðstefn­unni voru full­trú­ar fjög­urra sveit­ar­fé­laga. Lýstu þeir áhyggj­um sín­um yfir þeirri auk­inni hættu sem steðjar að sveit­ar­fé­lög­un­um vegna nátt­úru­vár. Kallaði Brynja Dögg Ing­ólfs­dótt­ir, um­hverf­is- og skipu­lags­stjóri sveit­ar­fé­lags­ins Horna­fjarðar, m.a. eft­ir því að gerð yrði skýr­ari spá fyr­ir sveit­ar­fé­lög­in, svo hægt væri að sjá hvar hætt­urn­ar fel­ist.

„Við erum ekki með lista yfir hvaða svæði er hættu­leg­ast út frá sveit­ar­fé­lög­um en það er al­veg ljóst að við þurf­um að vera með betri spá sem held­ur utan um þessa nátt­úru­vá sem við erum að glíma við,“ seg­ir Anna Hulda.

Verk­efni sem krefj­ist stöðugr­ar end­ur­skoðunar

Hún seg­ir að kort­leggja þurfi öll sveit­ar­fé­lög út frá nátt­úru­vá þannig að hægt væri hálfpart­inn að litakóða allt Ísland með til­liti til hætt­unn­ar sem steðjar að. Þá þurfi einnig að draga sam­an upp­lýs­ing­ar sem fengn­ar voru við gerð hættumats, og gera þær aðgengi­legri sveit­ar­fé­lög­um.

Aðspurð seg­ir Anna Hulda ómögu­legt að segja til um hve lengi slíkt verk­efni væri í fram­kvæmd en ljóst er að það verður tíma­frekt og þyrfti auk þess stöðugt að vera í end­ur­skoðun. 

„En ein­hvers staðar þarf maður að byrja því hættumat og áhættumat, þau gilda auðvitað alltaf bara í ákveðinn tíma.“

mbl.is