„Algjör umbylting á atvinnuástandi“

Bjarni Benediktsson í morgun, þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt.
Bjarni Benediktsson í morgun, þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, seg­ir að náðst hafi góður ár­ang­ur í rík­is­fjár­mál­um í gegn­um heims­far­ald­ur­inn sem hafi síðan skilað sér í góðri viðspyrnu, bæði heim­ila og fyr­ir­tækja. 

Spár gera ráð fyr­ir því að lands­fram­leiðsla fyr­ir árið 2023 verði 120 millj­örðum meiri en það sem bú­ist var við fyr­ir tveim­ur árum síðan. Sam­hliða því hafi at­vinnu­leysi dreg­ist sam­an. Nú sé það orðið á pari við það sem var uppi fyr­ir heims­far­ald­ur, ef ekki betra. 

Þetta kom fram í máli hans í morg­un þegar hann kynnti fjár­laga­frum­varpi fyr­ir árið 2023.

„Það er í raun og veru al­gjör um­bylt­ing á at­vinnu­ástandi. Þegar at­vinnu­leysi er mikið, fara mjög háar fjár­hæðir í at­vinnu­leys­is­bæt­ur og það kem­ur minna inn í trygg­inga­gjaldið.

En hins veg­ar þegar að at­vinnu­leysi lækk­ar, þá þarf að greiða minna út af at­vinnu­leys­is­bót­um og fleiri taka þátt í að greiða staðgreiðslu og trygg­inga­gjaldið tek­ur við sér – sem er einn lyk­il­skatt­stofn rík­is­ins. Við erum á miðju ári kom­in und­ir meðaltal at­vinnu­leys­is frá ár­inu 2000. At­vinnu­stigið er bara gott á Íslandi um þess­ar mund­ir,“ sagði Bjarni í morg­un þegar fjár­laga­frum­varpið var kynnt.

Gríðarleg­ur ár­ang­ur á alla mæli­kv­arða

Þá nefn­ir Bjarni einnig kaup­mátt­ar­aukn­ingu í land­inu en tekj­ur á mann hafa auk­ist um 60 þúsund krón­ur á mánuði um­fram verðbólgu frá ár­inu 2016.

„Þetta er held ég í sögu­legu sam­hengi á alla mæli­kv­arða gríðarleg­ur ár­ang­ur. Hér hef­ur margt farið sam­an. Það hef­ur verið stöðug verðbólga lengst af en laun hafa líka hækkað veru­lega. Við gerðum tekju­skatts­breyt­ing­ar sem hafa gagn­ast tekju­lág­um hóp­um sér­stak­lega.“

mbl.is