Búast við 89 milljarða króna halla

Halli rík­is­sjóðs er áætlaður um 89 millj­arða króna fyr­ir næsta ár í fjár­laga­frum­varpi rík­is­stjórn­ar, og minnk­ar því um hundrað millj­arða króna frá fjár­lög­um árs­ins 2022, þar sem gert var ráð fyr­ir 186 millj­arða króna tapi. Heild­ar­út­gjöld rík­is­sjóðs eru áætluð um 1.296,5 millj­arðar á næsta ári, sem er hækk­un um 78,5 millj­arða frá fjár­lög­um árs­ins 2022.

Mesta aukn­ing­in í út­gjöld­um er til fé­lags-, hús­næðis- og trygg­inga­mála og þá hafa fram­lög til um­hverf­is­mála sömu­leiðis auk­ist tals­vert frá fyrra ári.

Heil­brigðismál eru þó eft­ir sem áður lang­stærsti út­gjaldaliður­inn og nema alls tæp­lega 320 millj­örðum króna.

Þetta kom fram í til­kynn­ingu Stjórn­ar­ráðsins en í morg­un kynnti Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, fjár­laga­frum­varp fyr­ir árið 2023. 

Í kynn­ing­unni kom fram að tekj­ur rík­is­sjóðs hafi auk­ist um­fram áætlan­ir. Eru tekj­ur þessa árs nú áætlaðar 80 millj­örðum meiri en gert var ráð fyr­ir við gerð fjár­laga fyr­ir ári síðan. 

„Kraft­mik­il einka­neysla“

„Þegar við und­ir lok síðasta árs samþykkt­um fjár­lög þessa árs, árs­ins 2022, þá vor­um við með hug­mynd­ir um að heild­ar­tekj­urn­ar færu í 950 millj­arða rúma en það stefn­ir í að tekj­ur þessa árs verði yfir þúsund millj­arðar og þar leggj­ast hérna nokkr­ir hlut­ir sam­an til þess að tryggja þá niður­stöðu.

Virðis­auka­skatt­ur­inn kem­ur til af mjög kraft­mik­illi einka­neyslu og fjölda ferðamanna á Íslandi. At­vinnu­ástandið skipt­ir veru­lega miklu máli eins og ég nefndi áðan. Arður og vext­ir eru líka um­fram vænt­ing­ar,“ seg­ir Bjarni.

„Niðurstaðan er um hundrað millj­arða betri af­koma frá fjár­lög­um þessa árs yfir til næsta árs.“

Skulda­hlut­fall ekki yfir 50%

Þá hafa skulda­horf­ur einnig batnað. Í miðjun heims­far­aldri var gert ráð fyr­ir að hlut­fall skulda yrði komið í 50,1% á næsta ári en nú er gert ráð fyr­ir 33% skulda­hlut­falli rík­is­sjóðs.

„Skuld­irn­ar á þessu ári eru ekki að hækka, það er að segja skulda­hlut­föll­in. Og ég verð að segja að mér finnst skulda­hlut­fall upp á 33 pró­sent eft­ir þess­ar ham­far­ir sem hafa dunið hérna á okk­ur, vera mjög góð niðurstaða og sýn­ir gríðarlega mik­inn styrk rík­is­fjár­mála.“

Fjármálaráðherra kynnir nýja fjárlagafrumvarpið í morgun.
Fjár­málaráðherra kynn­ir nýja fjár­laga­frum­varpið í morg­un. mbl.is/Á​rni Sæ­berg
mbl.is