„Framboðshliðin er vandinn okkar"

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Stóra vanda­málið sem Íslend­ing­ar standa frammi fyr­ir á hús­næðismarkaði er að ónógt fram­boð er af hús­næði. Þetta seg­ir Bjarni Bene­dikts­son, efna­hags- og fjár­málaráðherra. Hann kynnti í morg­un nýtt fjár­laga­frum­varp fyr­ir kom­andi ár. Sagði hann að sér­stak­lega mætti eiga von á því að út­gjöld vegna hús­næðismála myndu taka breyt­ing­um í meðför­um þings­ins. Þetta væri eitt af þeim mál­um þar sem rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir vildu koma á fram­færi sín­um áhersl­um.

Í fjár­laga­frum­varp­inu, sem Bjarni kynnti, batn­ar af­koma rík­is­sjóðs um 100 millj­arða frá því á þessu ári. Þó er enn gert ráð fyr­ir að hall­inn á rekstri rík­is­ins verði um 89 millj­arðar. „Mér finnst það mjög stórt mál að af­kom­an sé að batna og skulda­hlut­föll­in eru allt önn­ur en við óttuðumst í miðjum heims­far­aldr­in­um,“ seg­ir Bjarni í sam­tali við mbl.is eft­ir kynn­ing­ar­fund­inn. „Það eru líka vís­bend­ing­ar um að við séum að ná tök­um á verðbólg­unni og það skipt­ir miklu máli. Við vilj­um beita rík­is­fjár­mál­un­um svo þær spár gangi eft­ir,“ seg­ir hann einnig. Í kynn­ing­unni var mik­il áhersla lögð á að fjár­lög­in tækju mið af því að draga úr þeirri þenslu sem hef­ur verið und­an­farið.

Von­ast til að aðgerðir í hús­næðismál­um dragi úr verðbólgu

Sagði Bjarni að þær til­lög­ur sem hann vonaðist eft­ir að kæmu fram í haust um hús­næðismál myndu jafn­vel hafa enn frek­ari áhrif til að draga úr verðbólg­unni. „Fram­boðshliðin er vand­inn okk­ar um þess­ar mund­ir. Það er ónægt fram­boð af hús­næði.“ Vís­ar Bjarni til þess að innviðaráðherra hafi þegar kynnt fjölþætt­ar aðgerðir í þess­um mála­flokki, m.a. ramma­samn­ing við sveit­ar­fé­lög um að setja kast­ljósið á það hvar sé hægt að brjóta land und­ir nýja byggð og skipu­leggja svæði með það fyr­ir aug­um að auka fram­boð hús­næðis.

Geti nýtt til­greinda sér­eign um ára­mót

„Svo er spurn­ing um um­fang þess hús­næðis sem ríkið hef­ur beina eða óbeina aðkomu að, annað hvort í gegn­um Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un eða með stofnstyrkj­um eða hlut­deild­ar­lán­um. Mér finnst að vinn­an hljóti meðal ann­ars að snúa að því að leggja mat á um­fang þess,“ seg­ir hann.

Bjarni benti í kynn­ingu sinni einnig á að um næstu ára­mót geti fyrstu kaup­end­ur nýtt til­greinda sér­eign sína til að greiða inn á lán. „Það mun skipta mjög miklu máli og mestu máli fyr­ir tekju­lága,“ seg­ir hann.

Hækka bæt­ur al­manna­trygg­inga um 9%

Spurður út í breyt­ing­ar á bóta­kerf­inu í nýj­um fjár­lög­um seg­ir Bjarni að bæði hafi ým­is­legt verið gert og bú­ast megi við frek­ari breyt­ing­um. Á miðju þessu ári hafi verið gripið til aðgerða til að standa með tekju­lág­um. „Það er sér­stak­ur barna­bóta­auki, auk­inn hús­næðisstuðning­ur og svo voru bæt­ur al­manna­trygg­inga hækkaðar. Nú stend­ur yfir vinna við að end­ur­skoða barna­bóta­kerfið sem til stend­ur að kynna í haust. Þá hækka bæt­ur al­manna­trygg­inga um ára­mót­in um 9% frá upp­hafi þessa árs til upp­hafs næsta árs,“ seg­ir hann.

Spurður hvort hann telji að með þessu verði hægt að viðhalda kaup­mætti tekju­lægsta hóps­ins, þegar horft sé til þeirr­ar miklu verðbólgu sem er uppi núna, seg­ir Bjarni að ef horft sé á heild­ar­um­fangið þá muni það tak­ast. „En auðvitað er erfitt að full­yrða um stöðu allra ein­stak­linga þar sem staða þeirra er svo mis­jöfn,“ seg­ir hann.

Unnið mark­visst að því að draga úr um­fangi vaxta­bóta

Bend­ir Bjarni á að marg­ir hafi beint sjón­um sín­um að þeim sem horf­ast nú í augu við hækk­andi greiðslu­byrði vegna hús­næðislána. „En það sem skipt­ir máli er að við erum til dæm­is að af­nema stimp­il­gjöld af end­ur­fjármögn­un og fólk get­ur fært sig yfir í meira skjól sam­hliða því að verðtryggð lán hækka.“ Bæt­ir hann við að sam­hliða hækk­un verðtryggðra lána hafi eign­astaða einnig batnað veru­lega og að það eigi við um eig­in­fjár­stöðu flestra heim­ila þrátt fyr­ir hærri verðbólgu.

Hækk­andi eigið fé með hækk­andi fast­eigna­mati hef­ur þau áhrif að 2.800 manns sem áður fengu vaxta­bæt­ur verða nú skert­ir að fullu og að í heild­ina muni skerðing koma til hjá um 90% þeirra sem fengu ein­hverj­ar vaxta­bæt­ur. Spurður út í það hvort það komi til greina að mæta þess­um hópi á ein­hvern hátt, seg­ir Bjarni að mark­visst hafi verið unnið að því að draga úr um­fangi vaxta­bóta­kerf­is­ins og færa þann stuðning yfir í al­menna íbúðakerfið. Hann birt­ist nú í stofnstyrkj­um og í aukn­um leigu­bóta­greiðslum. „Það má segja að fjár­mögn­un á hlut­deild­ar­lán­un­um sé líka hluti af aðgerðum sem við vild­um að tækju við af vaxta­bóta­kerf­inu og ég á von á því að það muni koma til­lög­ur frá hús­næðis­hópn­um um framtíð vaxta­bóta­kerf­is­ins,“ seg­ir Bjarni.

Und­an­farið hef­ur bæði verið um­tals­verð verðbólga og launa­hækk­an­ir. Spurður, hvort eitt­hvað hafi verið horft til þess að breyta fyr­ir­komu­lagi á skatt­leys­is­mörk­um, seg­ir Bjarni að áður hafi þau þró­ast eft­ir launa­vísi­tölu. Þegar tekju­skatt­s­kerf­inu hafi verið breytt hafi verið horfið af þeirri braut og nú sé miðað við fram­leiðslu­aukn­ingu í hag­kerf­inu. „Það er góður mæli­kv­arði tel ég og ætti að tryggja að laun­in haldi verðgildi sínu frá ein­um tíma til ann­ars og nálg­ast að vera í takt við launaþróun í land­inu. Það er ekk­ert vit að hækka skatt­leys­is­mörk­in alltaf ef laun hækka um­fram fram­leiðni­vöxt­inn.“

Vongóður um að ná tök­um á verðbólg­unni von bráðar

Í síðasta mánuði lækkaði verðbólg­an sam­kvæmt Hag­stof­unni úr 9,9% niður í 9,7%. Spurður hvort hann telji þetta vera hápunkt verðbólgu­tíma­bils­ins seg­ir Bjarni að hann ætli ekki að setj­ast í sæti spá­manns. „En ég er sann­færður um að aðgerðir Seðlabank­ans eru farn­ar að hafa áhrif og einnig sann­færður um að aðgerðirn­ar sem við erum að boða hafi áhrif. Ég er ágæt­lega vongóður um að við náum tök­um á þessu von bráðar,“ seg­ir hann.

Varðandi lang­tíma­verðbólgu­horf­ur seg­ir hann að lang­ur veg­ur sé enn frá tæp­lega 10% verðbólgu niður í 2,5% verðbólgu­mark­mið. Hins veg­ar muni um hvert pró­sentu­stig og seg­ist hann hafa góða til­finn­ingu fyr­ir því að með rík­is­fjár­mál­un­um sé verið að stíga skyn­sam­legt skref í rétta átt í þeim efn­um.

mbl.is