Íslenskan lykill að lífinu

Katrín Jakobsdóttir flytur stefnuræðu sína í kvöld.
Katrín Jakobsdóttir flytur stefnuræðu sína í kvöld. Skjáskot

„Lífið er nefni­lega ekki bara vinna held­ur svo margt annað og við eig­um að bjóða þeim sem hingað koma tæki­færi til að taka þátt í líf­inu á Íslandi,“ sagði Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld og rök­studdi þannig að sam­stillt átak stjórn­valda og at­vinnu­lífs­ins þyrfti til að bjóða nýj­um íbú­um lands­ins upp á ís­lensku­kennslu, helst á vinnu­tíma og þeim að kostnaðarlausu.

Sagði ráðherra að meðal þess sem fæl­ist í því að taka þátt í líf­inu í land­inu væri til að mynda að syngja í kór, stunda íþrótt­ir og úti­vist, taka þátt í stjórn­mál­um og fé­lags­starfi, fara í leik­hús eða taka þátt í öðrum þeim at­höfn­um dag­legs lífs er hug­ur­inn stæði til.

„Íslensku­kunn­átta er mik­il­væg­ur lyk­ill að því lífi – fyr­ir þau sem hingað koma en ekki síður fyr­ir okk­ur sem ber­um ábyrgð á að verja tungu­málið og tryggja að það geti haldið áfram að vaxa og dafna,“ sagði Katrín.

Orku­skipti í al­mannaþágu

Greindi hún frá því að ný­lega hefði hún farið átta mín­útna flug­ferð í raf­magns­flug­vél og ræddi í fram­hald­inu að flug á græn­um orku­gjöf­um yrði það sem koma skyldi á 21. öld­inni.

„Við hér á Íslandi erum í ein­stakri stöðu til að ná fram orku­skipt­um í al­mannaþágu vegna þess að rétt­ar ákv­arðanir hafa verið tekn­ar. Al­menn­ing­ur á helsta orku­fyr­ir­tæki lands­ins, Lands­virkj­un, og því stend­ur ekki til að breyta. Þetta er eitt mik­il­væg­asta innviðafyr­ir­tæki lands­ins ásamt Landsneti – og við hljót­um öll að vera þakk­lát fyr­ir að hug­mynd­ir um að selja þessi mik­il­vægu fyr­ir­tæki náðu ekki fram að ganga,“ sagði Katrín.

Nefndi hún svim­andi hækk­an­ir orku­verðs í Evr­ópu og að Íslend­ing­ar væru í öf­undsverðri stöðu með sína ódýru raf­orku. „Þegar kem­ur að orku­skipt­um og orku­fram­leiðslu þá er frum­skylda okk­ar í þeim efn­um við ís­lensk­an al­menn­ing í nútíð og framtíð. Við þurf­um að tryggja að öll ork­u­nýt­ing, hvort sem það er vatns­föll, jarðvarmi, vind­ur­inn, sól­ar­orka eða hvað annað, verði ábyrg, í sátt við nátt­úr­una og í þágu al­menn­ings,“ hélt hún áfram.

35.000 íbúðir á tíu árum

Stríðið í Úkraínu hefði komið beint ofan í tveggja ára heims­far­ald­ur og verðbólga plagaði sam­fé­lög vest­an­hafs og aust­an. Sem bet­ur fer væri at­vinnu­ástand gott á Íslandi um þess­ar mund­ir og mestu skipti að stjórn­völd og seðlabanki væru sam­stillt og stjórn­völd styddu við þá þegna lands­ins sem ættu að vök að verj­ast.

„Fé­lags­leg­ar áhersl­ur stjórn­valda í hús­næðismál­um á und­an­förn­um árum hafa skilað langt­um fleiri al­menn­um íbúðum sem hafa skipt sköp­um fyr­ir hús­næðis­ör­yggi tekju­lægri hópa. Átaks­hóp­ur þjóðhags­ráðs lagði í vor fram ít­ar­leg­ar til­lög­ur að um­bót­um í hús­næðismál­um með áherslu á aukið fram­boð á íbúðar­hús­næði, aukið hús­næðis­ör­yggi, ekki síst þeirra sem eru á leigu­markaði, og end­ur­bætt­an hús­næðisstuðning.

Rík­is­stjórn­in mun fylgja þess­um til­lög­um eft­ir og í sam­starfi við sveit­ar­fé­lög­in verða byggðar 35.000 íbúðir á næstu 10 árum til að mæta hús­næðisþörf allra hópa. Aðgerðirn­ar munu ekki aðeins auka hús­næðis­ör­yggi held­ur einnig draga úr sveifl­um á hús­næðismarkaði en hús­næðis­verð er einn af þeim þátt­um sem hef­ur ýtt und­ir óstöðug­leika hér í verðlags­mál­um. Þess vegna for­gangs­röðum við hús­næðismál­un­um – til að auka lífs­gæði fólks og tryggja meiri jöfnuð, bæði í upp- og niður­sveifl­um efna­hags­lífs­ins.“

Aukn­ir for­dóm­ar dap­ur­leg­ir

Þá ræddi ráðherra rétt­indi kynseg­in fólks þar sem stór­stíg­ar fram­far­ir hefðu átt sér stað á land­inu, svo sem með lög­gjöf um kyn­rænt sjálf­stæði og auk­in rétt­indi trans og in­ter­sex barna.

„Á sama tíma er dap­ur­legt að skynja aukna for­dóma og niðrandi orðræðu í garð hinseg­in fólks. Það sýn­ir okk­ur svo ekki verður um villst að rétt­inda­bar­áttu lýk­ur aldrei og alltaf er hætta á aft­ur­för,“ sagði Katrín og minnt­ist á starfs­hóp um hat­ursorðræðu sem hóf störf í sum­ar og muni skila af sér álits­gerð fyr­ir ára­mót.

„Mann­rétt­indi eru ekki sjálf­sögð og við get­um ekki tekið þeim sem gefn­um. Við eig­um að stefna að því að Ísland verði framúrsk­ar­andi á sviði mann­rétt­inda. Þannig verður sam­fé­lagið okk­ar mann­eskju­legra, betra og þrótt­meira, hvort sem horft er til efna­hags­mála, þró­un­ar lýðræðis og stjórn­mála eða menn­ing­ar og lista,“ sagði for­sæt­is­ráðherra.

mbl.is