Mannkynið á rangri braut

Gríðarlegir gróðurelda hafa logað víða í Evrópu og í Bandaríkjunum …
Gríðarlegir gróðurelda hafa logað víða í Evrópu og í Bandaríkjunum sem rekja má til hlýnunar jarðar. AFP

Mann­kynið er á rangri braut í lofts­lags­mál­um vegna þess hve það er háð jarðefna­eldsneyti að sögn Sam­einuðu þjóðanna (SÞ). Sam­kvæmt nýrri sam­an­tekt hef­ur los­un á gróður­húsaloft­teg­und­um sem valda hlýn­un jarðar færst í auk­ana í kjöl­far lok kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. 

Alþjóðaveður­fræðistofn­un­in (WMO), sem heyr­ir und­ir SÞ, var­ar við al­var­leg­um af­leiðing­um dragi hag­kerfi heims lapp­irn­ar í því að draga úr los­un kolt­ví­sýr­ins í takti við það sem vís­inda­menn hafa talið nauðsy­legt til að sporna gegn hlýn­un jarðar. 

Flóð og aðrar öfgar í veðurfari hafa einnig valdið manntjóni …
Flóð og aðrar öfg­ar í veðurfari hafa einnig valdið mann­tjóni og eyðilegg­ingu víða, m.a. í Pak­ist­an. AFP

Vís­inda­menn hafa m.a. bent á þau gríðarlegu flóð sem hafa valdið mann­tjóni og eyðilegg­inu í Pak­ist­an ný­verið og mikla hita­bylgju sem hef­ur gengið yfir Kína með þeim af­leiðing­um að víða hef­ur orðið upp­skeru­brest­ur. Þetta séu tvö dæmi um það sem bú­ast megi við verði ekk­ert að gert í lofts­lags­mál­um. 

„Flóð, þurrk­ar, hita­bylgj­ur, öfg­ar í veðri og gróðureld­ar munu versna og slá öll fyrri met með ógn­væn­leg­um hraða,“ sagði Ant­onio Guter­res, aðal­rit­ari Sam­einuðu þjóðanna. 

SÞ sögðu í ág­úst að mikl­ar þurrk­ar í aust­ur­hluta Afr­íku, sem hafa ógnað lífi og heilsu millj­óna íbúa, munu að öll­um lík­ind­um halda áfram og þá hef­ur hættu­ástandið varað á horni Afr­íku í sam­tals fimm ár sam­fleytt.

Antonio Guterres líst ekki á blikuna.
Ant­onio Guter­res líst ekki á blik­una. AFP

„Það er ekk­ert nátt­úru­legt við um­fang þess­ara stór­slysa. Þetta er verðið sem mann­kynið greiðir fyr­ir fíkn sína í jarðefna­eldsneyti,“ sagði Guter­res.

Í skýrslu SÞ seg­ir, að í kjöl­far kór­ónu­veirufar­ald­ur­ins, þar sem stjórn­völd víða um heim fengu tæki­færi til að end­ur­meta sína orku­gjafa, mengi nú ríki heims sem aldrei fyrr. 

Árið 2020 féll út­blást­ur um 5,4% eft­ir að gripið varð til harðra sótt­varnaaðgerða um all­an heim. Það var for­dæma­laus lækk­un á milli ára. Þegar rýnt er í gögn yfir út­blást­ur fyrstu fimm mánuði þessa árs kem­ur í ljós að los­un gróður­húsaloft­teg­unda hafa auk­ist um 1,2% miðað við ástandið fyr­ir far­ald­ur­inn. 

Ástæðuna má aðallega rekja til mik­ill­ar aukn­ing­ar á los­un í Banda­ríkj­un­um, Indlandi og í flest­um Evr­ópu­ríkj­um á milli ára. 

„Vís­ind­in eru ótví­ræð; við erum á rangri braut,“ seg­ir Petteri Taalas, fram­kvæmda­stjóri Alþjóðaveður­fræðistofn­un­ar­inn­ar.

„Gróður­húsaloft­teg­und­ir eru á upp­leið og eru að ná nýj­um hæðum. Los­un frá jarðefna­eldsneyti er nú kom­in yfir það sem var fyr­ir far­ald­ur­inn. Und­an­far­in sjö ár eru þau hlýj­ustu frá því mæl­ing­ar hóf­ust.“

Lofts­lags­banki Kópernikus-áætl­un­ar­inn­ar greindi frá því í liðinni viku að sum­arið 2022 hafi verið það hlýj­asta í Evr­ópu og eitt það hlýj­asta á heimsvísu frá því mæl­ing­ar hóf­ust á átt­unda ára­tug síðustu ald­ar, eða í um hálfa öld. 

Í skýrsl­unni sem var birt í gær, seg­ir að það séu 93% lík­ur á því að metið fyr­ir hlýj­asta ár sög­unn­ar, sem er frá ár­inu 2016, verði slegið inn­an fimm ára. 

mbl.is