Fyrr í þessum mánuði unnu sjö erlendir sérfræðingar í svampdýrum ásamt starfsmönnum frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Hafrannsóknastofnun að rannsókn á svampdýrum úr hafinu umhverfis Íslands í Þekkingarsetrinu í Sandgerði.
Fram kemur í færslu á vef Hafrannsóknastofnunar að markmið samstarfsins sé að auka þekkingu á tegundasamsetningu svampdýra á Íslandsmiðum og í framhaldinu að kortleggja útbreiðslu einstakra tegunda.
Erlendu sérfræðingarnir voru frá Portúgal, Kanada, Norður-Írlandi, Spáni, Noregi og Svíþjóð og var unnið dagana 8. til 19. september.
„Árin 1991 – 2004 var safnað á vegum botndýraverkefnisins (BIOICE), miklu magni af svampdýrum á 579 stöðvum víðsvegar innan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands. Lítill hluti þessa efniviðar hefur verið rannsakaður til hlítar. Þó er vitað um 193 tegundir svampdýra á Íslandsmiðum, en vafalítið eru þær umtalsvert fleiri. Sýnasafnið úr botndýraverkefninu gefur færi á að kortleggja útbreiðslu svampdýrategunda og þar með fylgni við ýmsa umhverfisþætti, svo sem sjávardýpi, hitastig, seltu, botnstrauma og togveiðiálag,“ segir í færslunni.
Þá segir að stórvaxnir svampar þekja stór svæði á hafsbotni sem mynda sérstaka vistgerð sem fóstra tegundarík dýrasamfélög sem gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfi sjávar.
„Sennilega er tilveru stórsvampa einna mesta ógnað af botnskarki með veiðarfærum. Rannsóknir á lífríki á malarbotni og hörðum botni sýna skerta tegundafjölbreytni og að lítið er af stórsvömpum á togslóð, samanborið við nálæg svæði sem eru laus við botnskark. Viðkvæmastir eru stórvaxnir og stífir svampar, sem rifna upp eða brotna við að lenda í veiðarfærum,“ segir í færslunni.
Vakin er athygli á að í gögnum Hafrannsóknastofnunar séu dæmi um stórsvampa í afla hafi verið allt að 15 til 20 tonn. Þá geta togveiðarfæri þyrlað upp gruggi sem skerðir lífslíkur svampa. „Næringarnám þeirra byggist á því að dæla sjó í gegnum skrokkinn eftir örfínum rásum og sía smágerðar fæðuagnir úr sjónum. Fíngert grugg getur hæglega stíflað síunarkerfi svampa svo þeir þrífast illa eða drepast. Lítið er vitað hvort eða hversu langan tíma það tekur stórsvampa vaxa upp í fyrri stærð, en líklegast tekur það áratugi eða aldir.“