Þriggja manna keppnishópur fer í næstu viku auk liðsstjóra á heimsmeistaramótið í svokölluðum Enduro-hjólreiðum, en mótið fer fram í ítölsku Ölpunum. Til að reyna að fá eitthvað upp í ferða- og þátttökukostnað ákvað liðsstjórinn með tveggja daga fyrirvara að reyna að hjóla 300 kílómetra í Heiðmörk í dag, en það væri langlengsta vegalengd sem hann hefur farið hjólandi.
Hvetur hann fólk til að heita á málefnið og vonar að ferðin og uppátækið verði til þess að Ísland muni á komandi árum eiga fleiri keppendur á stóra sviðinu í Enduro-hjólreiðum.
Frans Friðriksson er umræddur liðsstjóri og þegar mbl.is náði tali af honum á fjórða tímanum í dag var hann búinn með tæplega þriðjung vegalendarinnar, eða um 100 kílómetra. Hann segir að hópurinn, sem auk hans samanstendur af hjólreiðamönnunum Jónasi Stefánssyni, Berki Smára Kristinssyni og Þóri Bjarna Traustasyni, haldi út næsta miðvikudag, en keppnin sjálf fer fram 3. október.
Frans segir að keppnin hafi ekki verið á áætlun hjá Hjólreiðasambandinu og því sitji þeir uppi með að sækja styrki fyrir ferðalagið og er ætlunin að „negla þetta verkefni.“ Fyrirkomulag heimsmeistarakeppninnar, sem nefnist Trophy of nations, er að þrír eru saman í liði og svo gildir sameiginlegur tími allra liðsmanna.
Frans segir að hingað til hafi þeir borgað allt úr eigin vasa, en að þeir hafi verið að horfa til þess að sækja stuðning til að mæta útgjöldunum vegna þátttökunnar. Það varð til þess að hann skellti sér í þetta verkefni.
„Ég ákvað í fyrradag sem liðstjóri að láta til mín taka og vekja smá athygli á þessu málefni fyrir hönd Enduro-hjólreiða og krakka sem eiga vonandi eftir að feta í okkar fótsport í framtíðinni. Við eigum fullt af flottu fjallahjólreiðafólki,“ segir Frans og bætir við að hér á landi eigi vel að vera hægt að setja saman þriggja manna lið til að keppa á stóra sviðinu í unglinga og fullorðinsflokkum, bæði kvenna- og karlamegin. Þá segir hann líka að frambærilegir keppendur séu í svokölluðum masters-flokkum, eða eldri flokkum.
En hvað varð til þess að hann ákvað að reyna að safna áheitum á þennan veg? Fyrir stuttu síðan kynnti hjólreiðafélagið Tindur áskorun innan félagsins þar sem markmiðið var að hjóla sem flesta hringi á um 9,6 kílómetra langri hringleið í Heiðmörk.
Einn félagi í Tindi fór síðustu helgi tæplega 260 kílómetra og greinilegt er að það hefur kveikt í Frans sem segir þó að hann eigi von á að sá aðili muni einnig styðja hann áfram í dag, enda sé málefnið gott. „Ég vona bara að það komi einhver og bæti metið ef ég næ því,“ segir Frans og hlær.
Sjálfur er Frans að stíga upp úr miklum meiðslum, en fyrir um ári síðan slasaðist hann alvarlega í Enduro-keppni þegar hann axlabrotnaði og lamaðist að hluta í annarri hendinni. Sjálfur geti hann því illa hjólað mjög tæknilegar fjallahjólaleiðir, en að þessi malarhringur í Heiðmörk hafi verið fullkomin áskorun.
Lagði hann af stað klukkan 9 í morgun, en Hafsteinn Ægir Geirsson, einn af sigursælustu hjólreiðamönnum Íslands, var með honum fyrstu hringina. Fleiri hafa bæst í hópinn og segist Frans vona að þegar líði á daginn komi enn fleiri enda megi hann alveg við hvatningunni. Sérstaklega á það við þar sem lengsti hjólreiðatúr hans sé 200 kílómetra keppni fyrir um þremur árum.
Spurður hvort að það sé ekki bara hringavitleysa að ætla að fara meira en 30 svona hringi hlær Frans og segir svo alveg geta verið. Hvort hann hafi fulla trú á að hann muni ná 300 kílómetra markmiðinu segist hann vel upplagður, en að þetta muni taka sinn tíma. „Þetta verður eitthvað langt inn í nóttina,“ segir hann glaður í bragði, þrátt fyrir alla rigninguna sem hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Greinilegt er að Heiðmörkin er orðin vinsæll staður fyrir þolkeppnir, en um síðustu helgi fór þar fram utanvegahlaupakeppnin Bakgarður náttúruhlaupa þar sem sigurvegarinn hljóp 214 kílómetra í yfir sólarhring.
Eins og fyrr segir var fyrirvarinn ekkert mjög langur, aðeins tveir dagar og segir Frans að þess sjáist merki varðandi vistir. Hann hafi tekið nokkuð með sér af bæði drykkjum og næringu, en svo hafi hann ætlað að taka með sér hamborgara og grilla í kvöld. „En svo tók ég bara hamborgarabrauðin með mér,“ segir hann og skellihlær. „Vonandi kemur hún Halla mín með hamborgarana í kvöld,“ bætir hann við og á þar við eiginkonu sína.
Hægt er að heita á Frans og styrkja ferðalagið á HM með því að leggja inn á reikning Tinds hjólreiðafélags. Kt: 501111-0660. Bnr: 515-26-501120
Enduro er grein innan fjallahjólreiða sem hefur undanfarin ár rutt sér til rúms og er í dag líklega vinsælasta keppnisfyrirkomulagið í fjallahjólreiðum hér á landi og víðar. Það má segja að Enduro-keppni séu mitt á milli ólympískra fjallahjólreiða og fjallabruns, en með sérleiðafyrirkomulagi.
Á meðan hjólaðir eru ákveðnir hringir í nokkur skipti upp og niður í ólympískum fjallahjólreiðum og fjallabrunið er áherslan mest megnis tæknilegs eðlis þegar dúndrað er niður brekkur, stokkið á pöllum o.s.frv., þá er í Enduro farin lengri leið og henni skipt upp í fjölda styttri sérleiða.
Tímataka er á hverri sérleið og gildir samanlagður tími til úrslita. Algengt er hér á landi að hver sérleið sé um ein og hálf mínúta upp í sex mínútur, en styttri leiðir þekkjast líka. Erlendis geta sérleiðir orðið allt upp í 15 mínútur. Hver sérleið þarf að vera alla vega 80% niður á við, en á milli sérleiða hjólar hópurinn saman svokallaðar ferjuleiðir og er þá oft um einhverja hækkun að ræða, en tíminn er ekki tekinn á ferjuleiðum.