Hvalvertíðinni er lokið. Báðum hvalbátunum hefur verið lagt við bryggju í Reykjavíkurhöfn. Alls veiddust 148 langreyðar, sem er svipað og verið hefur á vertíðum undanfarinna ára.
Vertíðin stóð yfir frá 22. júní til 29. september, eða í slétta 100 daga. Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. lætur vel af árangrinum. „September var sérstaklega góður, mikið af hval og stutt að fara og frá höfuðdegi má segja að hafi verið alger blíða, fyrir utan 2-3 daga um daginn,“ segir Kristján.
Hann segir að mikið hafi verið af hval við Suður- og Suðvesturland. Flestir hvalirnir hafi verið veiddir í september sem er óvenjulegt því brælur og skammdegismyrkur hafa oft dregið úr krafti veiðanna á þeim tíma.
Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.