„Það voru meiri væntingar“

Páll Snorrason, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Eskju á Eskifirði, gerir ráð fyrir …
Páll Snorrason, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Eskju á Eskifirði, gerir ráð fyrir að loðnuveiðar hefjist ekki fyrr en um miðjan febrúar vegna þess hve lítil vertíðin virðist ætla að verða. Ljósmynd/Eskja

„Ég er nú bara að melta þetta. Það voru meiri vænt­ing­ar – byggðar á ung­loðnu­mæl­ing­un­um 2021, en eins og Hafró seg­ir á eft­ir að fara í leiðang­ur aft­ur í janú­ar eða fe­brú­ar, seg­ir Páll Snorra­son, fram­kvæmda­stjóri Eskju, um ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar um há­marks­afla á kom­andi loðnu­vertíð.

Haf­rann­sókna­stofn­un til­kynnti í morg­un að ný ráðgjöf geri ráð fyr­ir 218.400 tonna há­marks­afla, sem er 45% minna en gert var ráð fyr­ir eft­ir mæl­ing­ar 2021 og 75% minni ráðgjöf en var fyr­ir síðustu vertíð.

Páll ger­ir ráð fyr­ir að um aðeins 130 þúsund tonna loðnu­kvóta verði út­hlutað til ís­lenskra skipa vegna þeirra skuld­bind­inga sem Ísland hef­ur geng­ist und­ir í samn­ing­um við Nor­eg, Græn­land og Fær­eyj­ar.

Til veiða í fe­brú­ar

„Þetta þýðir fyr­ir okk­ur að við mun­um bara veiða til mann­eld­is,“ seg­ir Páll. Hefði verið um stærri vertíð að ræða hefði tölu­vert af loðnu verið nýtt í fram­leiðslu á fiski­mjöli og lýsi. „En vegna þess hve lít­il vertíðin virðist ætla að verða er ekki til­efni til þess.“

Loðna, sem veidd er til mann­eld­is, er veidd seint á vertíðinni, meðal ann­ars til að ná hrogna­full­um fiski, enda hrogn­in verðmæt­asti hlut­ur fisks­ins. Vegna þessa ger­ir Páll ráð fyr­ir að veiðar hefj­ist ekki fyrr en um miðjan fe­brú­ar, jafn­vel seinna, þar sem hrogna­tíma­bilið hefst í mars.

Á síðustu vertíð fóru sum­ir af stað í des­em­ber og því er ljóst að um­svif í veiðunuma minnka mikið milli ára.

Eskja gerir meðal annsr út uppsjávarskipið Aðalstein Jónsson SU-011.
Eskja ger­ir meðal annsr út upp­sjáv­ar­skipið Aðal­stein Jóns­son SU-011. Ljós­mynd/​Eskja
mbl.is