Verðmæti strandveiðiafla sumarsins var rúmlega 4,7 milljarðar króna. Aflaverðmætið í maí var 1,3 milljarðar, 1,9 milljarðar í júní og 1,5 milljarðar í júlí en strandveiðitímabilinu lauk í júlí í ár. Verðmæti strandveiðiaflans árið 2021 voru tæpir 3,9 milljarðar króna eða 838 milljónum minna en í ár.
Kemur þetta fram á vef Hagstofu Íslands.
Í ár voru 712 bátar á strandveiðum og afli þeirra tæp 12.600 tonn. Til samanburðar voru á fyrstu strandveiðunum árið 2009 554 bátar og aflinn 4.129 tonn.
Þorskveiðar skila 93% af verðmætum strandveiðiaflans og ufsaveiðar 6%. Rúmlega 58% af þorskinum var landað á svæði A og tæplega 50% ufsans á svæði D.