Sveppagró í nýju íþróttahúsi og aðgerða þörf

Miðgarður er fjölnota íþróttahús í Garðabæ.
Miðgarður er fjölnota íþróttahús í Garðabæ. Ljósmynd/Aðsend

Niðurstaða úttektar sérfræðinga á húsnæði íþróttahússins Miðgarðs í Garðabæ er að sveppagró hafi greinst í gúmmíundirlagi undir gervigrasi. Um er að ræða jarðvegssvepp og er talið að sveppurinn hafi borist inn í húsið í leysingum í mars þegar mikið vatn flæddi inn í húsið.

Málið var rætt í bæjarráði í dag, en í fundargerð kemur fram að beðið sé frekari niðurstaðna um umfang vandans. Reiknað er með að á einhverjum tímapunkti þurfi að fletta gervigrasinu upp og skipta um gúmmíundirlagið. 

Samkvæmt ráðleggingum sérfræðinga verður jarðvegssveppnum haldið niðri með reglulegri sótthreinsun þangað til gúmmíundirlag verður fjarlægt. Fyrsta sótthreinsun fór fram laugardaginn 15. október. Regluleg sótthreinsun mun fara fram á þeim tíma sem ekki eru æfingar eða kennsla þar sem gervigrasið er og tryggt verður að öll ummerki sótthreinsunar verða horfin áður en notkun hefst á ný eftir hverja hreinsun.

Segir jafnframt í fundargerðinni að vegna tíðra loftskipta og með reglulegri sótthreinsun eigi að vera tryggt að heilsu barna, starfsfólks, foreldra og annarra gesta sé ekki ógnað. Þá verði fylgst með loftgæðum og ef sveppagró fari yfir viðmiðunarmörk verði allri starfsemi hætt umsvifalaust.

Samkvæmt tilkynningu frá sveitarfélaginu í mars hafði mikið vatn safnast í kring­um bygg­ing­una og leysingavatn flæddi inn í húsið. Bæjarfulltrúinn Ingvar Arnarson birti myndir og myndbönd á Facebook sem sýndu hvernig umhorfs var daginn þegar flæddi inn.


 

Sagði í tilkynningunni þá að tekist hefði að forða tjóni en starfsmenn bæjarins hafi unnið hart að því að dæla vatni frá húsinu alla nóttina. Höfðu samverkandi þættir orsakað að það flæddi inn. Vegna veðurs og mik­illa leys­inga rann vatn niður úr hlíðum Kópa­vogs, niður golf­völl­inn og safnaðist sam­an á nokkr­um klukku­tím­um, en tekið er fram að ekki sé lokið við framkvæmdir við gatnakerfið á svæðinu, ásamt móttökukerfum, enda um nýtt hverfi að ræða.

Fyrstu æfingar í húsinu fóru fram í febrúar, en formleg opnunarhátíð var í apríl. Kostnaður við húsið nam fjórum milljörðum króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina