Hætta getur fylgt slæmum og úreltum hefðum og er það sérstaklega til umfjöllunar á forvarnarspjaldi tíu í röðinni undir merkjum 12 hnúta.
Þar er vakin athygli á að setningar á borð við „æ þetta hefur alltaf virkað og ætti að gera það núna“ séu ágæt „dæmi um venjur sem fólk virðist ekki sjá ástæðu til að endurskoða - þær hafa jú alltaf virkað - þótt þær geti jafnvel verið á skjön við öryggisviðmið, leiðbeiningar framleiðanda og reglur,“ að því er segir um veggspjaldið í tilkynningu frá Samgöngustofu.
Á veggspjaldinu er bent á „fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir þær hættur sem af þessu geta stafað. Mikilvægt er að fólk líti ekki á það sem sjálfgefið að tiltekin venja sé besta og öruggasta leiðin. Það er jafnframt mikilvægt að vera óhrædd/ur við að gagnrýna og endurskoða hefðir.“
Samgöngustofa ásamt samstarfsaðilum getur út nýtt forvarnarspjald í hverjum mánuði á þessu ári og eru 12 hnútar listi yfir tólf algenga þætti sem geta leitt til slysa eða óhappaatvika til sjós.