Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur hafnað beiðni tölvunarfræðingsins Stephen Thaler um endurupptöku í máli sem snýr að því hvort að gervigreindarforrit geti talist vera uppfinningamaður þegar sótt er um einkaleyfi fyrir uppfinningu. Lögmaður Thaler segir að úrskurðinum verði skotið til Hæstaréttar Bandaríkjanna.
Reuters greinir frá.
Thaler heldur því fram að forrit hans, DABUS, ætti að geta talist uppfinningamaður. Því hefur verið hafnað af yfirvöldum og síðar dómstólum í Bandaríkjunum þar sem ekki sé um að ræða einstakling. Þá hefur því verið hafnað af Evrópusambandinu og Ástralíu.