VG styður framlagningu útlendingafrumvarps

Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður VG.
Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður VG. mbl.is/Hákon

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styður framlagningu útlendingafrumvarps Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra og vill sjá málið tekið fyrir á Alþingi. Þetta segir Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður VG, í samtali við mbl.is.

Hann segir að frumvarpið hafi tekið breytingum frá því í vor sem hafi orðið til þess að flokkurinn styður að frumvarpið fari í þinglega meðferð.

Jón Gunnarsson sagði í kvöldfréttum RÚV að sátt ríki innan ríkisstjórnarinnar um frumvarpið. Þetta er í fimmta sinn sem keimlíkt útlendingafrumvarp er lagt fram.

Hvaða breytingar urðu á frumvarpinu?

„Þær eru nú nokkrar, en það er til dæmis fallið frá fyrri tillögum um takmarkanir á möguleikum þeirra sem þegar hafa verið veitt vernd í öðru ríki, til þess að geta fengið efnislega meðferð hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla eða sérstakra ástæðna. Það er ein stór breyting,“ segir Orri Páll.

Hann seg­ir þingflokk VG ekki hafa verið lengi að afgreiða frumvarpið til þinglegrar meðferðar en eins og fram hafi komið þurfti þingflokkur Sjálfstæðismanna lengri tíma til þess að ræða og afgreiða frumvarp dómsmálaráðherra.

Telur líkur á því að frumvarpið verið samþykkt

Orri Páll segir flokkinn vilja sjá þingið takast á við frumvarpið, þar sem mikilvægt er að breið sátt ríki í landinu um útlendingamál.

„Ég segi ekki hér og nú hvort ég styðji endanlega útgáfu frumvarpsins eftir þinglega meðferð. Það þarf að klára vinnsluna á því áður en ég get svarað því, en við viljum fá frumvarpið til umræðu í þingsal.“

Orri Páll segist aðspurður telja líkur á því að frumvarpið nái í gegn, nú í fimmtu tilraun.

„Útlendingalögin eru í grunninn frá 2016 og voru þá unnin í breiðri sátt í þinginu. Ég er þeirrar skoðunar að þessi málaflokkur eigi skilið mjög breiða samfélagslega sátt og þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að ná í gegnum þingið einhverju sem ríkir sátt um.“

mbl.is