Tónlistarmaðurinn Ed Sheeran vill setja á markað sína eigin sólarvörn með sólarvarnarstuðul 70, en með því vill hann auka úrval af sterkri sólarvörn fyrir fólk með ljósa húð og rautt hár.
Í færslu sinni á Instagram sagðist Sheeran þakka guði fyrir sólarvörn með stuðli upp á 50, en á myndinni er hann staddur í sundlaug í sólarlandi. Nú vill hann auka úrval af hærri sólarvarnarstuðlum á markaðinum.
Í samtali við The Mirror sagði Sheeran ljóst yfirbragð sitt klárlega vinna sér í haginn markaðslega séð, en hann vill hafa andlit sitt á umbúðunum. „Þú myndir kaupa sólarvörn ef andlit mitt væri á umbúðunum vegna þess að þú myndir hugsa: „Hann veit örugglega hvað hann er að tala um“,“ sagði söngvarinn.
Hæst fer stuðull sólarvarnar upp í 100 og útilokar þá 99% UVB-geisla, sem eru útfjólubláir geislar með stutta bylgjulengd. Hins vegar eru það líka UVB-geislarnir sem eru nauðsynlegir fyrir myndun D-vítamíns í húðinni, en þeir valda líka, ásamt UVA-geislum, skemmdum á húð sem geta leitt til húðkrabbameins til lengdar.
Það er vitað að ljós húð brennur hraðar í sólinni en dekkri húð, en eftir því sem húðin er viðkvæmari fyrir sól þeim mun mikilvægara er að vernda hana með sólarvörn.