Fjöldi Covid-tilfella stöðugur hérlendis

Ná þarf markmiðum í örvunarbólusetningum áhættuhópa til að vernda þá …
Ná þarf markmiðum í örvunarbólusetningum áhættuhópa til að vernda þá sem eru í mestri hættu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fjöldi greindra Covid-tilfella hefur haldist stöðugur á Íslandi frá því í sumar samkvæmt fréttum frá Embætti Landlæknis. Nýgengi sjúkdómsins hérlendis hefur sömuleiðis farið lækkandi og er nú rétt rúmlega 80 á hverja hundrað þúsund íbúa, en var 10 þúsund á hverja 100 þúsund íbúa þegar verst lét. 

Sömu sögu er ekki að segja af Evrópu þar sem sjúkrahúsinnlögnum hefur fjölgað vegna sjúkdómsins og fleiri tilfelli greinst, samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnarstofnun Evrópusambandsins.

Kuldi og bólusetningar

Þrátt fyrir aukningu á tíðni smita í Evrópu er dánartíðni lág, en þó hefur þriðjungur landa ESB tilkynnt um aukningu á dauðsföllum hjá viðkvæmustu hópum eldri borgara á sjúkraheimilum. Talið er að bæði kólnandi veðurfar í álfunni vegna árstímans og dræm þátttaka í örvunarbólusetningu gætu að hluta skýrt þessa aukningu.

Enn ógn á heimsvísu

Neyðarnefnd Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) fundaði 13. október sl. og lýsti yfir að heimurinn væri enn ekki laus við ógn kórónaveirunnar og hún enn talin ógn á heimsvísu. Enn sé veiran óútreiknanleg og lítið vitað um afleiðingar nýrri afbrigða. Talið er að álag á heilbrigðisstofnanir muni halda áfram vegna faraldursins.

Sjö sjúklingar með Covid-19 á spítala

Hérlendis hafa 55% íbúa landsins greinst með Covid-19 og margir sýkst oftar en einu sinni. Hér hafa bólusetningar gengið ágætlega hjá eldra fólki og þeirra sem eru í áhættuhópum. 

Í dag voru sjö sjúklingar á Landspítala með Covid-19 en enginn á gjörgæslu.

mbl.is