JL-húsið er eitt af ógæfuhúsum Reykjavíkur

„Eitt satt orð, það er markmiðið í lífinu,“ segir Snæbjörn Arngrímsson, rithöfundur og fyrrum bókaútgefandi, en fyrsta spennusaga hans fyrir fullorðna heitir einmitt því nafni. Sagan hefst á köldu októbersíðdegi þegar Júlía og Gíó, maður hennar, sigla saman út í hinn sögufræga Geirshólma í Hvalfirði vegna verkefnis sem Júlía hefur tekið að sér. Hún snýr hins vegar ein síns liðs þaðan aftur. Hvað gerðist í kjölfar þess að hún yfirgaf manninn sinn á þessu eyðiskeri? Hvernig getur staðið á því að hann er ekki lengur á eyjunni þegar hún vitjar hans aftur? Og hvernig á hún að skýra það fyrir yfirvöldum að maðurinn virðist  horfinn af yfirborði jarðar?

Júlía leitar að manni sínum og liggur leið hennar meðal ananrs í JL-húsið sem er „eitt af ógæfuhúsum Reykavíkur,“ eins og Snæbjörn segir.

Snæbjörn var um árabil mikilvirkur bókaútgefandi bæði heima og erlendis en hann hefur búið í Danmörku undanfarin ár. Eftir að hann seldi forlögin og hætti að gefa út bækur fannst honum hann vera að missa íslenskuna og því fór hann að skrifa. Hann segir að það geti verið svakaleg sæla að skrifa bók en líka píslarganga.

„Ég var ánægður þegar fyrsti lesandinn hafði samband og sagði: „Mér fannst hún alveg rosalega fyndin.“ Það kom mér á óvart,“ segir Snæbjörn.

mbl.is