Slysin gerast hratt og lentu tveir skipverjar á sitt hvoru skipinu í því að fá högg á andlitið í vetur.
Sá fyrri var um borð í Hoffelli SU-80 þegar skipið var statt á veiðum á Austfjarðarmiðum þann 19. janúar. Á þessum degi voru öldur um þrír til fimm metrar en nokkur vestanátt.
„Skipverjar voru að taka trollið. Svokallaður dragnótarlás var fastur í pokanum. Þegar skipverji var að rykkja í lásinn kom ólag á skipið og losnaði hann við það og lenti í andliti skipverjans,“ segir í skýrslu Rannsóknanefndar samgönguslysa.
Dragnótarlásinn þjónaði því hlutverki að vera öryggi ef sterturinn slitnaði en ahnn var grafinn ofan í pokann og þurfti átak við að losa hann.
Þann 20. mars fékk síðan annar skipverji sem var að lása patentlás á Pálínu Þórunni GK-49 grandarann í andlitið þegar hann lyftist undan öldu. Pálína Þórunn var á togveiðum og var búið að kasta trollinu og slaka út gröndurum, en kasta átti á meira dýpi og því nauðsynlegt að lengja grandara, að því er fram kemur í skýrslu nefnarinnar um málið.
„Þegar komið var að þeim stað þar sem lengja átti grandarana var keðjuvasa vafið utan um grandarakeðjuna, um 3-4 metra frá samsetningu, og hann festur með hífingargils. Slakað var í grandarspil þannig að grandarar fyrir framan keðjuvasa voru slakir. Skipið fékk á sig öldu á því augnabliki sem skipverjinn beygði sig niður til að lása grandaranum í sundur. Við það slóst grandarinn framan í hann,“ segir í skýrslunni.
Skipverjinn fékk aðhlynningu um borð en hann bólgnaði í framan og leitaði læknis þegar komið var í land tveimur dögum síðar. Reyndist hann við skoðun ekki hafa hlotið beinbrot.
„Þegar veður er slæmt getur verið skynsamlegra að lengja í gröndurum þegar veiðarfærið er fyrir innan. Togþilfar þessa skips er stutt og því erfitt og tafsamt að viðhafa slíkt verklag. Í þessu tilfelli hefðu keðjur sem festar eru í rennuþil minnkað líkur á að grandari slægist til,“ segir í sérstakri ábendingu Rannsóknanefndar.