Spænskunámskeið fyrir byrjendur hafa frá upphafi verið ein vinsælustu námskeið Endurmenntunar Háskóla Íslands. Steinunn Björk Ragnarsdóttir , sem heldur þessi námskeið, segir að allir geti lært spænsku en mikilvægt sé að vera óhræddur við að spreyta sig.
„Oftast gengur fólki vel að læra grunninn. Framburðurinn á spænskunni er Íslendingum almennt auðveldur. Það eru ákveðnir stafir sem hljóma ekki eins og í íslensku en að megninu til þá hljóma orðin eins og þau eru lesin,“ segir Steinunn og heldur áfram: „Í spænskunni erum við laus við fallbeyginguna en hins vegar reyna sagnbeygingarnar á. Það er þó auðveldlega hægt að komast á þann stað að geta gert sig vel skiljanlegan þó sagnbeygingarnar séu ekki fullkomnar.“
Aðspurð hverjir komi aðallega á námskeiðin hjá henni þá segir hún það vera nokkuð fjölbreyttan hóp.
„Stór hluti er fólk sem fer mikið til Spánar í golf, fólk sem á jafnvel húsnæði þar eða einfaldlega fólk sem hefur áhuga á að ferðast til Spánar eða spænskumælandi landa. Þá er spænskumælandi fólki að fjölga á Íslandi og fólk sem á spænskumælandi maka vill læra spænsku til að geta átt samskipti við tengdafjölskylduna. Þá hafa einhverjir jafnvel farið til spænskumælandi landa sem skiptinemar á yngri árum eða lært spænsku í framhaldsskóla og vilja rifja spænskuna upp. Enn öðrum finnst spænskunámið bara skemmtileg dægrastytting enda hollt fyrir heilann að læra nýtt tungumál. Ég hef lesið að ein besta heilaleikfimin sé að læra annað tungumál og að það geti seinkað elliglöpum. Það er aldrei of seint að byrja að læra svo nú er bara um að gera að skella sér á námskeið,“ segir Steinunn.
Þó Steinunn segi spænskuna vera tiltölulega auðvelt tungumál fyrir Íslendinga, þá eigi vissulega sumir auðveldara með námið en aðrir.
„Eftir því sem fólk kann fleiri tungumál þeim mun auðveldara er að bæta nýju tungumáli við sig,“ segir Steinunn og heldur áfram. „Á námskeiðunum hjá Endurmenntun eru allir svo áhugasamir og virkilega komnir þangað til þess að læra og þess vegna verða námskeiðin svo skemmtileg.“
Hún segir að hvert námskeið sé þrjár vikur og á fyrsta námskeiði sé uppbygging tungumálsins kynnt og farið í grunnatriðin. Síðan sé byggt ofan á. Flestir sem taki fyrsta námskeiðið haldi áfram og komi einnig á næstu námskeið, annaðhvort strax í kjölfarið eða seinna. „Eftir þrjár vikur er fólk ekki altalandi á spænsku en það verður opnara fyrir tungumálinu. Í næstu ferð þess til Spánar er það líklegra til að hlusta meira á spænskuna og jafnvel skilja orð og orð sem fólk segir, lesa á skiltin í kringum sig, skilja ýmislegt sem stendur á matseðlinum o.s.frv. Og það er það sem er svo gaman, að skilja meira og meira.“
Spurð um töfraráð til þess að ná spænskunni á sem stystum tíma segir Steinunn að best sé að dvelja í landi þar sem töluð er spænska. En fólk hefur ekki alltaf tækifæri til þess og þá er mikilvægt að vera stöðugt að nota spænskuna á einhvern hátt, t.d. með því að hlusta, horfa og lesa, þannig byggir fólk upp orðaforða og tilfinningu fyrir tungumálinu. Í því sambandi mælir hún til dæmis með smáforritum á borð við Duolingo og spænskum kvikmyndum og þáttum á streymisveitunum en hægt er að horfa á efnið með spænskum texta. „Þá er gaman hvað tónlist á spænsku er farin að hljóma meira hér á Íslandi en það hjálpar mikið að þjálfa eyrað og hlusta á spænskuna til að ná henni betur. Margir eru feimnir við að tala en það skiptir máli að henda sér bara af stað. Æfingin skapar meistarann í þessu sem öðru. Spænskumælandi fólk er mjög ánægt þegar aðrir spreyta sig á spænskunni þar sem enskukunnátta þeirra er ekki alltaf mjög góð. Það er því um að gera að nýta tækifærið og opna á samtal á ferðalögum því heimamenn eru langflestir til í að spjalla og sýna manni þolinmæði,“ segir Steinunn hvetjandi.