Það sem gerir haustið bærilegra er óneitanlega litadýrðin sem því fylgir. Tilhugsunin um veturinn fram undan virðist týnast innan um marglit laufblöðin og því um að gera að nýta þann stutta tíma sem litadýrðin nær hámarki og njóta útsýnisins.
Eftirfarandi staðir þykja með þeim fallegri á þessum árstíma, en þeir eiga það allir sameiginlegt að vera litskrúðugir og gleðja augað.
New York-borg í Bandaríkjunum
Haustið í New York-borg þykir töfrum líkast. Í Central Park, sem er almenningsgarður í miðju Manhattan í New York, má sjá ótrúlega litadýrð. Það er mikil upplifun að ganga um garðinn í fallegu haustveðri og sjá laufin falla. Svo er tilvalið að enda daginn á því að skoða hrekkjavökuskreytingar í borginni.
Kyoto í Japan
Hin undurfögru bleiku kirsuberjatré draga marga ferðamenn til Japan, en þau eru ekki síður falleg á haustin. Í október verða laufin appelsínugul og rauð. Í nóvember og desember hafa laufin fallið, en þá virðast götur Kyoto vera teppalagðar með litríkum blöðum.
Vermont í Bandaríkjunum
Nýja England er svæði á norðausturhorni Bandaríkjanna sem sex fylki tilheyra, þar á meðal Vermont-fylki. Haustið byrjar í norðri í september en þaðan fer haustlitadýrðin suður um Nýja England og myndar einstaka fegurð.
Vermont er líklega með frægari stöðum heims til að heimsækja á haustin, en litadýrðin er svo töfrandi að fjórðungur tekna ríkisins vegna ferðamanna kemur inn á haustin.
Þingvellir
Þingvellir skarta sínu fegursta á haustin þegar litadýrðin tekur yfir og lokkar fjölda landsmanna og ferðamanna á svæðið. Þingvellir eru mikið náttúruundur, enda merkileg jarðsaga og vistkerfi þar.
Kanada
Þegar farið er yfir landamæri Nýja Englands blasa haustlitir Kanada við. Landslagið er stórbrotið og mikið um appelsínugula tóna.
Vatnahérað í Bretlandi
Í Vatnahéraðinu í Bretlandi má sjá heilu fjallshlíðarnar þaktar litríkum haustlitum sem speglast svo í vötnunum og minnir helst á listaverk. Útsýnið gerist varla mikið betra.