Joe Biden, núverandi forseti Bandaríkjanna, og Barack Obama, fyrrverandi forseti, komu saman á laugardagskvöld til að sýna stuðning sinn við John Fetterman, framboðsefni Demókrataflokksins í Pennsylvaníu til öldungadeildar Bandaríkjanna. Fetterman berst við Mehmet Oz sem er frambjóðandi Repúblikanaflokksins. Þingkosningar verða haldnar á morgun og þykir ljóst að mikið er í húfi fyrir báða flokka.
Kosið er um öll 435 sætin í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og 35 af 100 sætum í öldungadeild. Eins og er eiga demókratar og repúblikanar jafn mörg sæti í öldungadeild, en atkvæðisréttur Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna, gerir gæfumuninn fyrir demókrata.