Nökkvi Fjalar Orrason, eigandi Swipe Media, og TikTok-stjarnan Embla Wigum eru búin að vera kærustupar í eitt ár. Parið fagnaði deginum með því að fara út að borða í Lundúnum þar sem þau búa.
Nökkvi birti einnig mynd af listaverki, sem virðist vera tileinkað dagsetningunni sem þau ákváðu að verða par, 8. nóvember 2021, en undir dagsetningunni stendur sálufélagar.
Smartland ræddi við Nökkva og Emblu fyrr á þessu ári þegar þau opinberuðu samband sitt. Þá sögðu þau að það væri kostur að byrja saman eftir að hafa verið vinir lengi og unnið saman lengi.
„Við þekktumst svo rosalega vel áður en við tókum næstu skref og vissum nákvæmlega hvað við vorum að fara út í. Auðvitað var smá áhætta í fyrstu skrefunum tengd viðskiptasambandinu okkar en við vorum sannfærð um það að sama hvað myndum við fara í gegnum það með vináttu,“ sagði hið lukkulega par þá.