131 þúsund tonna loðnukvóta úthlutað

Venus NS hefur verið úthlutað mestu aflamarkinu í loðnu.
Venus NS hefur verið úthlutað mestu aflamarkinu í loðnu. Ljósmynd/Jón Sigurðsson

Fiskistofa hefur lokið úthlutun 131.826 tonnum af aflamarki í loðnu en íslenska ríkinu hefur þegar verið ráðstafað 7.318 tonn af hlut Íslendinga í veiðunum, eða 5,3% í samræmi við ákvæði laga um byggða- og atvinnukvóta. Langmest fær Venus NS eða 12.310 tonn, en næst mest fær Vilhelm Þorsteinsson EA eða 12.121 tonn.

Sú útgerð sem fær mesta loðnukvótann er Ísfélag Vestmannaeyja sem mun á komandi vertíð geta veitt 26.348 tonn eða tæp 19% þeirra aflaheimilda sem ætlað er íslenskum skipum. Næst mest geta skip Síldarvinnslunnar veitt, alls 24.377 tonn sem er 17,5% af heildarafla.

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna komandi vertíðar nemur 218.400 tonnum en tæplega 80 þúsund tonnum af þessu rennur til norskra, færeyskra og grænlenskra skipa í samræmi við fiskveiðisamninga Íslands við fyrrnefnd ríki.

Ráðgjöfin vegna vertíðarinnar er um helmingur af því sem var gert ráð fyrir. Bundnar eru vonir við að ný stofnmæling í janúar/febrúar skili aukinni ráðgjöf og þar með auknum heimildum, en að óbreyttu stefnir í að vertíðin skili um 20 milljörðum minna í útflutningstekjur.

mbl.is