Hefði verið betra að skipa rannsóknarnefnd strax

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar Alþing­is.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar Alþing­is. mbl.is/Hákon

„Þetta var vönduð og góð kynning hjá Ríkisendurskoðun á skýrslunni þar sem farið var vandlega yfir hana. Síðan fengu þingmenn tækifæri til þess að spyrja og við náðum nokkrum umferðum í því að fá svör við helstu spurningum um efni skýrslunnar.“

Þetta segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar Alþing­is, í sam­tali við mbl.is um kynningu á skýrslu stofnunarinnar um sölu rík­is­ins á bréf­um í Íslands­banka.

Fundi nefndarinnar lauk rétt eftir klukkan sex og mun hún funda aftur á miðvikudagsmorgun. 

„Nú hefst umfjöllun nefndarinnar um skýrsluna, við köllum til okkar fleiri gesti og förum ofan í saumana á þessu máli öllu,“ segir Þórunn.

Frá fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar Alþing­is í dag.
Frá fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar Alþing­is í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ábyrgð ráðherra

Hún segir mörgum spurningum enn ósvarað. „Það er þannig að í stjórnsýsluúttekt sem þessari að þá er Ríkisendurskoðun – eðli málsins samkvæmt – ekki að skoða allar hliðar málsins. Þó að það sé verið að rýna fylgni við lög og það hvernig tókst að afla ríkinu tekna þá verður ekki hjá því litið að við þurfum einnig að fjalla um ábyrgð fjár­mála- og efna­hags­ráðherra á þessu ferli, lögum samkvæmt. Spyrja spurninga um það,“ segir hún og bætir við að Bjarni Benediktsson ráðherra verði kallaður fyrir nefndina á næstunni, ásamt öðrum sem skýrslan fjallar um. 

Þórunn segir einnig að ýmis atriði hafi komið upp í spurningum þingmanna á fundinum. Því verði öllu fylgt eftir í starfi nefndarinnar. 

Ræddu um trúnað

Hún segir það koma til greina að rannsóknarnefnd Alþingis verði sett á fót. 

„Ég vil þó gjarnan að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sinni starfi sínu og svo verði farið yfir þá stöðu. Ég verð að viðurkenna að við fyrstu sýn þá finnst mér ýmislegt benda til þess að það hefði verið betra að taka þá ákvörðun strax í upphafi að skipa rannsóknarnefnd með öllum þeim heimildum sem hún hefur.“

Var leki skýrslunnar í fjölmiðla í gær tekinn fyrir á fundinum?

„Ríkisendurskoðun ræddi við nefndina um trúnaðinn og samskiptin. Ég er að minnsta kosti, sem formaður nefndarinnar, sammála því að við þurfum að halda því samtali áfram,“ segir Þórunn að lokum. 

mbl.is